136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[11:08]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 98 frá iðnaðarnefnd, um 23. mál, frumvarp um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006, og endurskoðun þeirra. Á 132. löggjafarþingi var frumvarp til nýrra vatnalaga samþykkt sem lög frá Alþingi og við umfjöllun um frumvarpið í þinginu var samkomulag um að gildistöku laganna yrði frestað til 1. nóvember 2007 og iðnaðarráðherra falið að skipa nefnd til skoðunar á lögunum. Vatnalaganefnd var skipuð í janúar 2008 og skilaði niðurstöðum sínum og tillögum til iðnaðarráðherra í september ásamt ítarlegri skýrslu um vatnsréttindi og vatnalöggjöf.

Einróma samstaða var í nefndinni um að leggja til að endurskoðun færi fram á vatnalögum, nr. 20/2006, og lagði vatnalaganefnd jafnframt til að gildistöku laganna yrði frestað tímabundið á meðan nefnd sem skipuð yrði á vegum iðnaðarráðherra í samráði við umhverfis- og forsætisráðherra ynni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur nefndarinnar. Frumvarpið sem hér liggur fyrir byggir því á tillögum nefndarinnar en er að öðru leyti óbreytt lög frá þeim sem samþykkt voru á þingi síðasta haust.

Hv. iðnaðarnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Að nefndarálitinu standa sá sem hér hefur framsögu ásamt Einari Má Sigurðarsyni, Guðmundi Magnússyni, Herdísi Þórðardóttur, Guðmundi Steingrímssyni, Rósu Guðbjartsdóttur, Björk Guðjónsdóttur og Grétari Mar Jónssyni. Hv. þm. og sessunautur minn Guðni Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls — upptekinn við að bjarga málum þjóðarinnar geri ég ráð fyrir — en hefur lýst sig sammála nefndarálitinu.