136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

almenn hegningarlög.

33. mál
[11:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil nefna nokkur atriði í þessari umræðu. Í fyrsta lagi er mikilvægt að árétta að þær efnisbreytingar sem felast í frumvarpinu fengu verulega umfjöllun í allsherjarnefnd síðasta vetur. Farið var yfir alla þætti frumvarpsins og var afstaða tekin til ýmissa álitaefna sem þar komu upp.

Nefna má umræður um breytingar sem varða lagaákvæði um hryðjuverk. Einnig má nefna atriðin, sem kannski fengu mesta athygli í nefndinni, sem vörðuðu eignaupptöku þar sem vissulega komu fram sjónarmið um að visst stílbrot væri í löggjöf — með vissum hætti væri verið að leggja öfuga sönnunarbyrði á varðandi tilkomu þeirra eigna sem dæmdir brotamenn eða þeirra nánustu eiga.

Það var hins vegar niðurstaða nefndarinnar að til þess að raunverulega yrði hægt að beita sér gegn skipulagðri glæpastarfsemi með markvissum og áhrifaríkum hætti, og ekki síst þeim brotum sem miða að því að skapa fjárhagslegan ávinning, eins og í fíkniefnabrotum, væri nauðsynlegt að innleiða breytingar af þessu tagi. Að mati þeirra sérfræðinga sem fyrir nefndina komu, og að mati nefndarmanna, eftir verulega umfjöllun, varð það niðurstaðan að slíkt væri hægt að gera án þess að það stangaðist á við viðurkennd mannréttindasjónarmið.

Annað atriði sem ég vildi nefna af því hv. þm. Atli Gíslason gerði það nokkuð að umfjöllunarefni í ræðu sinni — hann hafði mikla fyrirvara á því að við værum að eiga við þau ákvæði almennra hegningarlaga sem vörðuðu hryðjuverk með almennum hætti. Nú er rétt að það komi fram að tilgangur frumvarpsins var ekki síst að skýra þau ákvæði sem þegar eru í lögum um hryðjuverk til þess á annan veginn að draga úr hættunni á því að þau verði skilin á þann veg að þeim sé ætlað að ná til einhverra fleiri atriða en raunverulegra hryðjuverka. Hins vegar var verið að bregðast við ákveðnum athugasemdum sem fram höfðu komið með því að fara í lagfæringu þessara ákvæða.

Varðandi þörfina fyrir að hafa í íslenskum lögum ákvæði sem varða hryðjuverk þá deili ég ekki þeirri skoðun með hv. þm. Atla Gíslasyni að það sé algjörlega óþarfi af því að við höfum ekki reynslu af hryðjuverkum hér á landi. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur eins og önnur vestræn lýðræðisríki að hafa ákvæði sem gera kleift að bregðast við hryðjuverkaógninni sem hefur farið vaxandi í vestrænum samfélögum á undanförnum árum. Það er rétt að við Íslendingar höfum ekki sjálfir reynslu af þessum þáttum en það segir ekki að ástæðulaust sé fyrir okkur að hafa ákvæði í lögunum sem taka til slíkra tilfella ef þau koma upp.

Það er líka vinkill á þessu máli, sem mér finnst rétt að vekja athygli á, að í því samfélagi sem við búum við, hinu opna og lýðræðislega samfélagi Vesturlanda, þar sem tengsl milli landa eru sífellt meiri og meiri, getum við ekki útilokað að hér á landi fari fram starfsemi sem hugsanlega miðar að hryðjuverkum í öðrum löndum. Hryðjuverkum sem ekki beinast gegn stjórnvöldum eða öðrum aðilum hér á landi heldur geti beinst að stjórnvöldum eða almenningi í nágrannaríkjunum. Það væri mikill ábyrgðarhluti af hálfu okkar Íslendinga ef við hefðum ekki ákvæði í okkar lögum sem tækju á slíkum málum bara gagnvart okkar nánustu nágrönnum. Við höfum séð dæmi um það frá Norðurlöndunum að þar hafa verið hópar sem að minnsta kosti eru grunaðir um að standa að skipulagningu hryðjuverka. Ef löggjöfin er veikari hér á landi, eða hér eru ekki fullnægjandi úrræði til að taka á þessum málum, eigum við á hættu að Ísland verði mögulega notað sem vettvangur til þess að skipuleggja hryðjuverk annars staðar.

Að þessu sögðu held ég að það sé ljóst, burt séð frá útfærslu eða orðalagi einstakra ákvæða, sem við getum rætt nánar í nefndinni eins og við gerðum raunar síðasta vetur, að við getum ekki, eins og mér fannst hv. þingmaður gera, blásið á það að við ættum að huga að þessum málum einfaldlega vegna þess að hér hefur ekki farið fram hryðjuverkastarfsemi af því tagi sem fjallað er um í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem hafðir voru til hliðsjónar þegar frumvarpið var samið.

Ég ætla ekki að fara djúpt í efnisatriði við þessa umræðu. Við eigum þess kost, bæði í allsherjarnefnd og hér við síðari umræður í þinginu. Ég vildi hins vegar aðeins minna á það í sambandi við málsmeðferðina að víðtæk samstaða var um það í allsherjarnefnd að gera þær meginbreytingar sem frumvarpið fól í sér. Vandinn sem skapaðist var hins vegar sá að eftir að umfjöllun í allsherjarnefnd var lokið kaus fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Atli Gíslason, að koma hér með fjölmargar breytingartillögur sem vörðuðu önnur atriði almennra hegningarlaga.

Nú er um það að ræða að í þessari umferð var verið að skoða tiltekna þætti almennra hegningarlaga. Ekki var um að ræða heildarendurskoðun á lögunum. Lögin eru, ef ég man rétt, hátt í 300 greinar og það var verið að taka fyrir einhverja afmarkaða þætti. Eftir umfjöllunina í allsherjarnefnd kaus hv. þingmaður hins vegar að blanda inn í umfjöllunina mun fleiri breytingartillögum sem vörðuðu aðra þætti en þá sem við höfðum verið að fjalla um í nefndinni og það skapaði vissan vanda vegna þess að það var ljóst að ekki var samstaða um að gera allar þær breytingar sem voru í anda þess sem hann lagði til, ólíkt því sem var með flestar efnisbreytingar frumvarpsins sjálfs. Það skapaði vissan hnút hér þegar tínd voru til fjölmörg önnur álita- og ágreiningsefni eftir á, þegar við höfðum lokið umfjöllun okkar í allsherjarnefnd.

En þetta verður aftur tekið fyrir í nefndinni í framhaldi þessarar umræðu og við munum að sjálfsögðu fara yfir allar þær athugasemdir og breytingar sem fram koma af hálfu umsagnaraðila og annarra nefndarmanna. En það er mikil og einlæg von mín að við berum gæfu til að samþykkja þær meginbreytingar sem felast í frumvarpinu. Við gerum okkur grein fyrir því að það eru álitaefni varðandi það hvort ganga eigi lengra á sumum sviðum og hvort breyta eigi einhverjum öðrum atriðum í almennum hegningarlögum.

Ég tel hins vegar mikilvægast að við reynum að ná samstöðu um að afgreiða þær breytingar sem í þessu felast. Við getum svo í sérstakri umræðu eða sérstakri umfjöllun farið yfir þau atriði önnur sem líklegri eru til þess að valda ágreiningi og látum það ekki tefja meðferð þessa mikilvæga máls.