136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

almenn hegningarlög.

33. mál
[11:58]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held því fram að ekki sé nóg að gert í þessum málum þrátt fyrir þær breytingar sem hafa verið gerðar. Þær voru gerðar á nauðgunarákvæðum en ég tel þær ekki hrökkva til því að við erum í sama farinu með ofuráherslu á verknaðaraðferðir og annað slíkt í staðinn fyrir að líta heildstætt á málið.

Ég get hins vegar verið sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni að málsmeðferð þeirra mála sem tekin voru fyrir í allsherjarnefnd var vönduð og verkstjórnin með ágætum svo að því sé haldið til haga.

Hvort aðferð mín er málefnaleg eða ekki er auðvitað gildismat og hv. þingmaður verður að hafa það fyrir sig. Ég er þeirrar skoðunar að þau mál sem ég hef gert að umtalsefni séu það brýn að nota verði hvert einasta tækifæri til að koma þeim á framfæri. Ég vek athygli á því að þó svo að þessi mál hafi ekki verið tekin fyrir í nefndinni þá er það ekki vandamál allsherjarnefndar, þetta er vandamál Alþingis í heild sinni að breyta þar um. Ég þykist vita að hv. formaður allsherjarnefndar hefur fullan hug á að þingmannamál fái meiri athygli. Mér er engin launung á því.

Því var líka þannig háttað með það frumvarp, frumvarp um breytingu á hegningarlögunum — um nauðgun, að mér gafst ekki einu sinni tækifæri til að mæla fyrir því á þingi. Þannig að maður hefur þingleg úrræði og beitir þeim.