136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[12:06]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er alltaf ágætt að ræða mál sem skipta máli en það er kannski ekki tímabært að ræða það mál sem hér er verið að ræða vegna þess að gefnar hafa verið ákveðnar yfirlýsingar sem taka mun tíma að vinna úr og það þarf að skoða marga fleiri þætti en menn hafa gengið út frá til að endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins verði trúverðug.

Sú niðurstaða sem vitnað er til hjá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna leggur auðvitað á ráðin um það að á upphafstíma kvótakerfisins hafi ýmislegt mátt betur fara og það vita hv. þingmenn allir. Þegar þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma var hún tekin með samkomulagi allra aðila til sjós og lands nema eins sem var Félag botnvörpuskipaeigenda sem áttu þá gamla síðutogara í Reykjavíkurhöfn. Allir aðrir, LÍÚ, samtök sjómanna og fiskvinnslu voru sammála um þetta kerfi. Menn þreifuðu sig áfram í því í ein þrjú ár þar sem ekki var fullkomið samræmi í hlutum að mínu mati. Sá sem hér stendur var einn af þremur þingmönnum sem sýndu mikinn óróa í samstöðu um þetta mál á Alþingi. Hinir voru hv. þingmenn Garðar Sigurðsson og Vestlendingurinn Skúli Alexandersson. Þar komu mestar efasemdirnar fram.

Niðurstaða mannréttindanefndarinnar sem hér er vitnað til tengist þessu, að í upphafi hafi ekki verið hugsað til enda en síðan hefur svo margt breyst í meðferð þessa kerfis að forsendur fyrir því sem gagnrýnt var á þeim tíma, fyrir 25 árum, eru auðvitað fyrir löngu lagðar fyrir róða. Þess vegna er ekki skynsamlegt að gera þetta að meginþætti málsins.

Við skulum láta liggja á milli hluta hvernig við getum túlkað þessa niðurstöðu. Niðurstöður hinna ýmsu heilögu hópa frá Sameinuðu þjóðunum, frá Evrópusambandinu, í slíkum ákveðnum túlkunaratriðum minna svolítið á stíl sem oft er talað um að sé í saumaklúbbum, með fullri virðingu fyrir þeim klúbbum, því að þeir ræða kannski oft af meiri skynsemi en hinir svokölluðu sérfróðu samsetningaraðilar í þessum hópum, sem oft eru afdankaðir stjórnmálamenn, afdankaðir embættismenn, menn sem hafa enga áhættu tekið í að vinna til árangurs nema að hafa vatnið kyrrt og svo eiga þeir að fara að ráðleggja öðrum, þeir eiga að fara að ráðleggja vinaþjóð eins og Íslendingum. Við skulum taka þeim kurteislega en við skulum líka sinna þeim varlega. Þetta á við í þessu máli. Lagakrókurinn í þessu er eitt af því sem er eilífðartúlkun og sýnir hve lagakrókarnir eru skemmtilegir og fjölbreyttir. Þær þúsundir lögfræðinga sem eru á Íslandi voru til að mynda ekki svo vitað sé á neinn hátt sammála hinum frægu fjölmiðlalögum sem rædd voru á Alþingi. Þar hafði hver sína túlkun, engir tveir lögfræðingar voru sammála. Þetta er auðvitað hlutur sem við þurfum að meta sem sjálfstæð þjóð sem tekur tillit til andardráttar samfélagsins, þeirrar þarfar sem er — ég nota ekki orðið þarfagreiningu en þörfina þarf að meta og möguleikana — og vinna úr því fyrst og fremst á skynsamlegan hátt með eðlilegu brjóstviti.

Við eigum ekki að rækta á Íslandi almennt og alþjóðlegt kurteisishjal. Við verðum að vera beittari. Það höfum við séð best síðustu daga. Við verðum að vera mun beittari og taka afstöðu án þess að vera einhverjir flatlendishjalarar. Þegar við lentum í brimsköflum fyrir stuttu voru það ekki grannar okkar úti í hinni sterku Evrópu sem sýndu okkur einhverja alúð eða vinsemd. Það var ekki Evrópusambandið, ekki Seðlabanki Evrópu, ekki Þjóðverjar, Bretar eða Frakkar nema síður sé. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að við þurfum fyrst og fremst að treysta á okkur sjálf og okkar eigið mat og gera ekki mál sem er kannski fyrnt að einhverju meginmáli þó að gott sé að hafa það til viðmiðunar, því er ég alveg sammála. Það eru miklu viðameiri atriði sem þarf að tryggja í endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það hefur þó sýnt sig, enda eru menn hættir að tala um sægreifana sem einhverjar ótuktir, þegar menn sjá það núna svart á hvítu á síðustu dögum að það er sjávarútvegurinn sem hefur hegðað sér skynsamlegast og eðlilegast í gegnum alla atvinnusögu Íslands. Sjávarútvegurinn sem er eina atvinnugreinin á Íslandi sem hefur setið undir einelti, einelti stjórnvalda, fjölmiðla og margra sem teygja sig með lagakrókana eins og þeim hentar. Við ættum að fara að sýna manndóm til þess að tryggja að sjávarútvegurinn hafi atvinnufrið. Ég er ekki fullkomlega sáttur við það kerfi sem nú er en það er eina kerfið sem sátt er um og það er eina kerfið sem við getum byggt á í stöðunni. Þegar kemur, vonandi fyrr en seinna, að ákveðinni endurskoðun þarf að tryggja til að mynda endurskoðun á veiðiskyldunni, endurskoða þarf mat á veiddum fiski og stöðu einyrkjanna í sjávarútveginum sem hefur hallað mjög á á síðustu 10 árum en lagasetningu um að taka stöðu einyrkjanna til gagngerðrar endurskoðunar hefur ekki verið sinnt. Þetta eru atriði sem skipta máli. Við eigum að beina athygli okkar að þessu og verja sjávarútveginn, sjómenn, útvegsmenn og fiskvinnslu gegn einelti.