136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði.

43. mál
[14:49]
Horfa

Guðmundur Magnússon (Vg):

Forseti. Ég styð eindregið þetta mál, hér er um mjög gott mál að ræða og það er líka þjóðhagslega hagkvæmt og ekki veitir af á þessum tímum. Ég hef kynnt mér þetta mál vel nokkur undanfarin ár og eldri blokkir sem ekki hafa lyftur eru einmitt til mjög mikilla vandræða. Þetta er erfitt að leysa vegna þess að ef settar eru lyftur utan á þær, sem liggur beinast við, lenda menn alltaf inn á hálfri hæð og það gengur náttúrlega ekki því að þá þurfa menn að príla tröppurnar. Aftur á móti hefur þetta verið leyst þannig í Noregi og Danmörku að taka úr stigaopinu, þ.e. úr auga stigans, og ná þar með nægilega stóru plássi fyrir lyftur, ekki mjög stórar en þó nægilega stórar fyrir hjólastól og einhverja burðarpoka og samt er nægilegt pláss í stiganum í kring til að fara með sjúkrabörur. Sjúkraflutningamenn voru lengi vel á móti þessu og vildu kanna þetta betur. Þeir gerðu það og fundu út að þetta mundi ekki hamla för þeirra og það er náttúrlega mjög mikilvægt. Það kom í ljós hjá þeim að í stigahúsi þar sem eru sex eða átta íbúðir og ef í einni íbúðinni eru t.d. hjón sem gætu verið þar áfram í staðinn fyrir að fara á elliheimili sem er mjög dýrt úrræði, tæki ekki nema tvö ár að vinna upp kostnað lyftunnar. Menn sjá því hve þjóðhagslega hagkvæmt þetta hlýtur að vera, hvað þá ef þetta ætti við um alla íbúana.

Þegar ungt fólk flutti inn í blokkirnar fyrir 30, 40 árum fullt af atorku og krafti fannst því ekkert mál að vera á fjórðu hæð með þrjú, fjögur börn en nú þegar börnin eru flogin burt og fólkið orðið gamalt og lúið er hræðilega erfitt að ganga með matarpokana upp alla stigana. Þetta væri hægt að leysa með svona lyftu. En mér er sagt að breyta þurfi einhverju í lögum og lagfæra og þar sem frumvarp um mannvirki er í vinnslu núna væri upplagt að koma þar inn kafla um þetta. Ég legg til að það verði gert, að það verði skoðað hvort ekki sé hægt að koma þessu inn í lög um mannvirki.

Að auki vil ég benda á þörfina hjá fólki sem lamast skyndilega, fatlast eða veikist á miðjum aldri, fyrir styrki eða lán til að breyta húsnæði sínu. Fólk gat sótt um og fengið mjög hagstæð lán hjá Tryggingastofnun ríkisins á sínum tíma, þau voru aðeins með 1% vöxtum og ég efast um að þau hafi einu sinni verið verðtryggð, þetta voru mjög ódýr lán og nánast styrkir. Það er eitthvað slíkt sem við þurfum að koma á þar sem við komum því við. Ég vildi endilega nota tækifærið til að koma þessu inn í umræðuna um þetta mál.