136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hækkun stýrivaxta.

[13:34]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að stórtíðindi hafa borist úr Seðlabankanum um að stýrivextir hafi verið keyrðir upp í 18% og voru lækkaðir fyrir nokkrum dögum um 3,5 prósentustig þá kemur þetta mjög á óvart. Það kemur líka á óvart af því að efnahags- og skattanefnd var með opinn fund í gær þar sem hv. þm. Magnús Stefánsson spurði eftir því hvort einhver skilyrði væru í IMF með fyrir slíku. Þar kom skýrt fram að Seðlabanki ákvæði stýrivexti, engin fyrirframlína um stýrivaxtahækkun lægi fyrir af hálfu IMF var sagt við þingið í gær af talsmanni ríkisstjórnarinnar.

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra sem hefur staðið í forsvari fyrir ríkisstjórnina með hæstv. forsætisráðherra: Var honum kunnugt um þetta skilyrði og var það lagt upp við ríkisstjórnina strax? Ég undrast mjög að ríkisstjórnin sé að mestu leyti erlendis þegar þetta gerist og þjóðin er vanbúin þessu. Menn bjuggust við að hér yrði til einhver heildarpakki um það hvernig bjarga ætti fólki og fyrirtækjum. Þetta er leið til þess að dauðrota.

Nú heyri ég að aðilar vinnumarkaðarins sem töluðu mjög fyrir IMF-leiðinni (Gripið fram í: Ekki allir.) segja alveg hiklaust að þetta muni hafa mjög alvarleg áhrif. Og ég sé að ýmsir eru farnir að efast um þetta, fréttaveitan Bloomberg gagnrýnir strax þessa vaxtahækkun og efast um hana. Hún minnir á Bretland frá 1992 þegar stýrivextir þar voru keyrðir upp að kröfu IMF úr 5 og upp í 15% og allt hrundi, pundið hrundi. Ég er ekki viss um að það liggi lausn í þessu en ég undra mig á því, hæstv. iðnaðarráðherra, að heildarmyndin er ekki til. Forustumenn ríkisstjórnarinnar eru ekki í landinu og þá er þessu hellt eins og bensíni á bálið. Ég vil fá skýringar á þessu. Hvenær verður heildarmyndin til, hvernig á að takast á við þetta stóra verkefni? Af hverju er það ekki gert þannig að fólk og fyrirtæki geti róað sig? Nú óttast fyrirtækin gjaldþrot, nú óttast fólkið gjaldþrot.