136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hækkun stýrivaxta.

[13:37]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það hefur komið fram oftar en einu sinni í þessum sölum að hv. þm. Guðni Ágústsson er í nánara og betra sambandi við aðalbankastjóra Seðlabankans en flestir þingmenn hér svo ég held að hv. þingmaður ætti bara að taka upp símann og fá þessar skýringar og afstöðu hjá Seðlabankanum. (Gripið fram í.) Seðlabankinn tekur þessa ákvörðun. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að ýmsir sérfræðingar bæði erlendis og líka hér innan lands hafa talið nauðsynlegt, þegar við erum að fara að ráðast í það með erlendum gjaldeyrislánum að opna gjaldeyrismarkaðinn aftur, að grípa til aðgerða sem styðja við gengið. (Gripið fram í: Og …?) Innlendir sérfræðingar hafa t.d. greint frá því að þeir telji réttara við þær aðstæður að styrkja gengið t.d. með vaxtahækkunum. Það hefur legið ljóst fyrir. Hins vegar undrast ég að hv. þingmaður skuli spyrja mig um það. Það er Seðlabankinn sem tekur þessa ákvörðun og hv. þingmaður hefur tekið þátt í því að slá skjaldborg um afstöðu Seðlabankans. Enginn þingmaður hefur komið upp í ræðustól Alþingis til að verja Davíð Oddsson seðlabankastjóra jafndyggilega og formaður Framsóknarflokksins þannig að sumum hefur þótt nóg um og jafnvel talað um það opinberlega að seðlabankastjóri hafi formann Framsóknarflokksins í kjöltu sinni. (Gripið fram í.) Kynni nú að vera að þeir vinirnir ættu að ræða saman um þetta. Ég held að það væri mjög gott fyrir hv. þingmann.