136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

áfengisauglýsingar.

[13:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku fengum við alþingismenn hvatningu frá fjölda samtaka í tilefni af vímuvarnaviku, Viku 43, eins og það var kallað. Yfirskrift þessarar hvatningar var: „Velferð barna, stöndum vörð um það sem virkar.“ Þar er vitnað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem sagt er að börn eigi rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og réttilega sagt að allar ákvarðanir eða ráðstafanir skuli byggðar á því sem börnum er fyrir bestu.

Í hvatningunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Neysla áfengis og annarra vímuefna raskar uppvexti og ógnar velferð margra barna. Sum bíða ævarandi tjón. Það er bitur reynsla að sjá barn sitt lenda í fjötrum vímuefnaneyslu og villast á brautir glæpa og ofbeldis.“

Síðan eru talin upp nokkur atriði í forvörnum sem rannsóknir hafa sýnt að virka, sem sagt bæta árangur í forvörnum. Nefnd eru þrjú atriði: 20 ára aldursmark til áfengiskaupa, bann við auglýsingum á áfengi og bann við sölu áfengis í almennum verslunum. Þetta þýðir að samhengi er á milli aðgengis að áfengum drykkjum og neyslu og á milli áróðurs og neysluhvatningar og neyslu.

Í sömu viku kvað Hæstiréttur upp úrskurð um 1 milljón kr. sekt vegna birtingar fjögurra áfengisauglýsinga í Blaðinu 2005. Þrátt fyrir varnir með tilvísun í stjórnarskrána og skuldbindingar okkar í EES telur Hæstiréttur að 20. gr. áfengislaga, nr. 75, frá júní 1998, hafi verið brotin með þessum auglýsingum.

Ljóst er að farið er í kringum þetta auglýsingabann með ótrúlegri útsjónarsemi og svindli. Auglýsingar eru á bílum á götum úti, á veitingastöðum, í blöðum og í sjónvarpi og menn fela sig á bak við bjórauglýsingar með því að setja „léttöl“ í hornið jafnvel þó að ekki sé boðið upp á óáfenga drykki með slíku merki.

Í framhaldi af þessu (Forseti hringir.) spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra:

Hyggst dómsmálaráðherra beita sér fyrir því að reglur verði hertar varðandi áfengisauglýsingar og málum betur fylgt eftir í samræmi við lög og niðurstöður í dómi Hæstaréttar?