136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

áfengisauglýsingar.

[13:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég tel að þessi dómur Hæstaréttar sé nauðsynleg ábending til allra um það hvernig túlka eigi 20. gr. áfengislaga og í sjálfu sér þurfi ekki að setja hertar reglur í framhaldi af dóminum því að hann er skýr varðandi þetta — og mjög mikilvægt, að mínu mati, að fá þessa niðurstöðu í Hæstarétti. Ég hef á undanförnum árum oftar en einu sinni verið spurður hér á þingi um 20. gr., hvort hún sé í raun sú vörn sem menn telja að hún eigi að vera og ég tel að þessi dómur Hæstaréttar sýni að svo sé. Ég hef hvatt til þess hér í þingsalnum að ákæruvaldið léti á það reyna með þeim hætti sem það teldi skynsamlegast hvernig staðið yrði að því að framkvæma þessa grein ef það færi í gegnum allt dómskerfið. Nú liggur dómur Hæstaréttar um þetta mál fyrir og ég tel að hann sé það skýr og afdráttarlaus að hann sé til leiðbeiningar öllum þeim sem hafa verið eða kunna að vera í einhverjum vafa um hvernig túlka beri 20. gr. áfengislaganna.

Ég sé því í sjálfu sér ekki ástæðu til að boða að af minni hálfu verði settar hertar reglur, það er Alþingis að ákveða inntak í lagagreinum eins og þessari en inntakið hefur nú verið skýrt af Hæstarétti á þennan ótvíræða hátt og ég er viss um að það mun hafa fordæmisgildi.