136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

áfengisauglýsingar.

[13:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tek undir það að það verður þá verkefni Alþingis að fylgjast með framkvæmd í framhaldi af þessum dómi og fylgja því eftir að menn gæti sín betur varðandi auglýsingar og fylgi þeim lögum sem sett hafa verið.

Stofnuð hafa verið heilu samtökin hér til þess að vekja athygli á þessu máli, þ.e. Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum, og er ástæða til að vekja athygli foreldra á þeim samtökum. Þau hafa heimasíðu og hafa haldið uppi umræðu um þennan málaflokk.

Ég hvet þingmenn og alla þjóðina til að taka höndum saman um að verjast ágangi söluaðila á áfengi og öðrum vímugjöfum og standa vörð um börnin okkar og unglingana. Það hefur aldrei verið brýnna en nú vegna þess að það ástand sem nú er að skapast í samfélaginu mun örugglega geta leitt til ákveðinnar upplausnar og aukins óöryggis og kvíða hjá börnum og unglingum. Við verðum því (Forseti hringir.) að standa vörð um þann hóp.