136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

virkjunarframkvæmdir.

[13:58]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra að hann hefur svarað þessari spurningu að hluta til áður. Nú vill þannig til að í tilkynningu frá Landsvirkjun segir, eftir því sem ég fæ best skilið, að hugsanlegt sé að flýta þurfi vinnu við Búðarhálsvirkjun þannig að ekki verði beðið eftir niðurstöðu rammaáætlunar. Það var m.a. þess vegna sem mér fannst nauðsynlegt að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að þessu atriði og vænti ég þess að hann geri þá grein fyrir því hvort hann telji eðlilegt að hraða Búðarhálsvirkjun að breyttu breytanda með tilliti til þess þó að rammaáætlun liggi ekki fyrir.

Að öðru leyti vil ég lýsa því yfir, virðulegi forseti, að miðað við þá gagnályktun sem ég dró hér áðan og gerði grein fyrir lít ég þannig á að með þögn sinni — eða það mátti skilja af orðum hans — sé iðnaðarráðherra að staðfesta þá skoðun mína að hvorki ríkisstjórnin hafi komið að stýrivaxtahækkun Seðlabankans (Forseti hringir.) né hafi það verið skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.