136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

áfengisauglýsingar og viðbrögð við dómi Hæstaréttar.

[14:04]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um viðbrögð hans við þessum dómi. Það liggur þá alveg skýrt fyrir að ráðherrann og þau embætti sem að málinu koma munu framvegis beita sér í samræmi við þá skýringu sem liggur fyrir á umræddu lagaákvæði áfengislaga.

Ég held að stjórnvöld og þar með talin ríkisstjórnin verði í auknum mæli að beita sér fyrir því að fólk dragi úr áfengisneyslu. Markmið í heilbrigðisáætlun sem samþykkt var fyrir nokkrum árum gerir ráð fyrir því að úr áfengisneyslu dragi en hið gagnstæða hefur gerst. Áfengisneysla hefur aukist verulega, líklega um 30% og er um 30% umfram það markmið sem menn settu sér árið 2010. Hún hefur aukist sérstaklega í hópi yngri kynslóðarinnar.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til þess að beita sér fyrir stefnumörkun í þá átt (Forseti hringir.) og hvet hann til þess að leggjast gegn lagabreytingum sem eru til þess fallnar að auðvelda áfengisauglýsingar.