136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

stýrivaxtahækkun.

[14:06]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég get ekki orða bundist í lok þessarar umræðu af því að ég hef hingað til borið virðingu bæði fyrir Alþingi og ríkisstjórn en mér finnst þingið nú niðurlægt af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra. Vegna hinnar miklu stýrivaxtahækkunar bendi ég á að það kom fram hjá fulltrúa ríkisstjórnarinnar á nefndarfundi í gær að engin fyrirframlína um stýrivaxtahækkun liggur fyrir af hálfu IMF. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann þekki aðra línu.

Ég heyrði í hádegisfréttum að forustumenn Sjálfstæðisflokksins, bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra, vörðu þessa ákvörðun og sögðu hana gerða í sínu nafni og ríkisstjórnarinnar. Þess vegna efast ég um þá framkomu sem við urðum vitni að hjá hæstv. iðnaðarráðherra sem hefur verið leiðandi maður í samstarfi síðustu vikna með okkur í stjórnarandstöðunni og í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Að menn skuli ekki geta spurt um það sem fram kemur í (Forseti hringir.) þinginu og síðan er snúið út úr og engu svarað um, bendir annaðhvort til þess að hæstv. ráðherra sé rökþrota og vilji aldrei tala um alvörumál (Forseti hringir.) eða að ríkisstjórnin sé klofin í stýrivaxtahækkunarmálinu. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að sú framkoma er ekki líðandi í þinginu, að hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra komi hér fram eins og gerðist í dag.