136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

niðurlagning úrskurðarnefnda á sviði siglingamála.

94. mál
[14:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um niðurlagningu tveggja úrskurðarnefnda á sviði siglingamála. Rökstuðningurinn og efnisatriðin koma fram í greinargerð með frumvarpinu og í örstuttri framsöguræðu hæstv. ráðherra og þarf ekki að hafa mörg orð um það. Ég geri enga athugasemd við að úrskurðarnefndirnar séu lagðar niður og á ekki von á að það verði ágreiningsefni þegar frumvarpið kemur til meðferðar í hv. samgöngunefnd eins og hér er lagt til að verði.

Ég get samt ekki látið hjá líða að fjalla um skipan úrskurðarnefnda á stjórnsýslustigi. Ljóst er að gríðarlega margar úrskurðarnefndir af þessum toga eru í íslenskri stjórnsýslu og vitna þá til þess að á 130. löggjafarþingi var lögð fram fyrirspurn til forsætisráðherra um fjölda sjálfstæðra og óháðra úrskurðarnefnda sem starfa á vegum ríkisins og hver kostnaðurinn við þær væri. Í svari forsætisráðherra, sem er á þskj. 1492 frá 130. löggjafarþingi, kemur fram að þá hafi um 42 slíkar nefndir verið starfræktar og gert ráð fyrir að kostnaður við þær á árinu 2003 hafi verið tæplega 340 millj. á verðlagi þess árs. Nefndunum hefur ekki fækkað síðan þá, ég held að þeim hafi þvert á móti frekar fjölgað þannig að þetta er mikill fjöldi nefnda og umtalsverður kostnaður sem hlýst af starfrækslu þeirra.

Rétt er að hafa í huga að úrskurðarnefndir á stjórnsýslustigi eru settar á laggirnar til að tryggja réttarstöðu þeirra sem vilja leita réttar síns eða telja á sér brotið með stjórnsýsluákvörðunum og því verður að gæta þess að tryggur farvegur sé fyrir einstaklinga, samtök, fyrirtæki, félög og hvern þann sem vill leita réttar síns eða telur á rétti sínum brotið. Mikilvægt er að tryggja að slíkar leiðir séu til staðar. Hin hefðbundna leið er auðvitað sú að — eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. samgönguráðherra — ráðherra úrskurði um kærumál eða ágreiningsmál á stjórnsýslustigi lægra setts stjórnvalds. Í vaxandi mæli hefur sú leið verið farin að setja á laggirnar sérstakar úrskurðarnefndir til að taka ómakið af ráðherrum. Um það eru skiptar skoðanir, bæði í pólitíkinni en einnig meðal fræðimanna. Árið 1999 gaf forsætisráðuneytið út skýrslu nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda og þar er m.a. fjallað um framtíðarstefnu þróunar stjórnsýslukerfisins og í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Á síðustu árum hefur sjálfstæðum stjórnsýslunefndum fjölgað mikið án þess að séð verði að baki stofnun þeirra liggi heildarstefnumörkun. Fjölgun stjórnsýslunefnda getur leitt til þess að erfitt verði að manna þær hæfum einstaklingum auk þess sem kostnaður við stjórnsýslu eykst og stjórnsýslukerfið verður flóknara. Miðað við smæð hins íslenska stjórnsýslukerfis gæti verið skynsamlegt að sameina nefndir á ákveðnum sviðum og bæta starfsskilyrði þeirra og gera þær öflugri þyki á annað borð ástæða til að færa vald frá ráðherra til nefndar. Æskilegt er að mótuð verði framtíðarstefna um þróun stjórnsýslukerfisins. Bæri þar að taka m.a. afstöðu til þess í hvaða tilvikum réttlætanlegt verður talið að gera undantekningu frá meginreglu íslenskrar stjórnskipunar og setja á fót sjálfstæða stofnun eða stjórnsýslunefnd.“

Ég tek undir sjónarmið skýrslunnar og tel að heildarstefnumótun eigi að fara fram á vegum hins opinbera um stjórnsýslunefndirnar og hvort rétt sé að fækka þeim, slá þeim saman og vera hugsanlega bara með eina stjórnsýslunefnd fyrir hvert ráðuneyti um allt sem undir það ráðuneyti fellur. Eða jafnvel fara þá leið sem stundum hefur verið farin — og ég hygg að Páll Hreinsson prófessor, nú hæstaréttardómari, hafi talað fyrir, m.a. á málþingi Lögfræðingafélags Íslands árið 2004 — að setja stjórnsýsludómstól inn í núverandi dómstólakerfi, þ.e. að starfrækja sérstakan stjórnsýsludómstól þangað sem allar kærur varðandi stjórnsýsluna færu. Þetta er álitamál sem ég tel fulla ástæðu til að gefa meiri gaum að heldur en gert hefur verið og hef leitt hugann að því sjálfur að flytja þingmál sem gæti lotið að endurskoðun á kerfinu þó að það sé hvorki komið fram né komið í neinn sérstakan búning. Á 131. löggjafarþingi fluttu þingmennirnir Atli Gíslason og Sigurjón Þórðarson þingsályktunartillögu um stjórnsýsludómstól og úrskurðarnefndir þar sem gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra skipi nefndir til að gera tillögur um stofnun stjórnsýsludómstóls innan núverandi dómstólakerfis og móta reglur um störf og starfshætti úrskurðarnefnda á æðra stjórnsýslustigi. Þetta mál var ekki afgreitt en ég tel engu að síður ástæðu til þess og kannski enn frekar nú eftir því sem þessum nefndum hefur fjölgað að taka þetta mál til rækilegrar endurskoðunar.

Í svari forsætisráðherra frá 130. löggjafarþingi, sem ég vísaði til áðan, kemur fram að á vegum samgönguráðuneytis starfi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála og úrskurðarnefnd siglingamála. Ekki er langt síðan við — á síðasta þingi hygg ég — töluðum um lög um Póst- og fjarskiptastofnun þar sem m.a. var fjallað um úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála. Ég lét þá skoðun í ljós þá, bæði við umræðu og eins við umfjöllun í samgöngunefnd, að mér fyndist mikið álitamál að vera með sérstaka úrskurðarnefnd á þessu sviði og byggði það á skoðun minni að úrskurðarnefndir séu dálítið sérkennilegt fyrirbæri í íslenskri stjórnsýslu og ekki alveg góð skipan mála. Vald og ábyrgð eru þá, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, færð frá ráðherra og yfir á sérstakar nefndir og alveg undir hælinn lagt hvernig þær eru mannaðar. Nefndir í stjórnsýslunni eru fjölmargar og starfa á mismunandi forsendum og ég tel að réttaröryggi og réttarstaða almennings og þeirra sem leita til nefnda af þessum toga sé ekki nægilega skýr og trygg með svo mörgum nefndum sem hafa mismunandi umboð og eru skipaðar á mismunandi forsendum. Af þessum sökum finnst mér eðlilegt að taka þetta mál til frekari umfjöllunar.

Hæstv. forseti. Ég er ekki andvígur því að þetta frumvarp nái fram að ganga og nefndirnar verði lagðar niður og tel það í samræmi við þau sjónarmið sem ég hef haft að frekar eigi að fækka nefndum en fjölga. Réttaröryggisins vegna er mikilvægt að skýra það gagnvart almenningi og starfsmönnum hver staða þeirra er og betur ætti að skoða að taka upp stjórnsýsludómstól eða stórfækka úrskurðarnefndum þannig að aldrei starfi fleiri en ein á hverju málasviði eða í samræmi við fjölda ráðuneyta. Þess vegna finnst mér mikilvægt að ákvörðun eins og sú sem lögð er til í frumvarpinu sé tekin á grundvelli heildarstefnumótunar og kalli eftir heildarendurskoðun. Það verður ekki á verksviði hæstv. samgönguráðherra heldur væntanlega á vettvangi forsætisráðherra eða dómsmálaráðherra, ef dómstólaleiðin verður farin. Ég mun líklega beita mér fyrir að slíkt þingmál verði flutt á þessu þingi.