136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

8. mál
[14:40]
Horfa

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu. Tillagan er 8. mál þingsins á þingskjali 8. Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Þuríður Backman, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Árni Páll Árnason, Kristinn H. Gunnarsson, Ellert B. Schram og Pétur H. Blöndal.

Ályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa að hreyfing geti orðið valkostur í heilbrigðisþjónustu, sem lækning og í fyrirbyggjandi tilgangi, þannig að læknar geti vísað á hreyfingu sem meðferð við sjúkdómum á sama hátt og vísað er á lyf eða læknisaðgerðir. Nefndin kanni kostnað og ávinning af fyrirkomulaginu. Hún meti hvort gera þurfi breytingar á lögum til að ná þessu markmiði og hvort setja þurfi á laggirnar nám eða endurmenntun fyrir þá sem hafa umsjón með hreyfingar-, lífsstíls- eða þjálfunaráætlunum.

Nefndin verði skipuð sjö manns. Ráðherra skipi formann án tilnefningar og landlæknir, Læknafélag Íslands, Samtök sjúkraþjálfara, heilsugæslan, Íþróttasamband Íslands og Lýðheilsustofnun tilnefni einn hver. Nefndin skili tillögum sínum í júní 2009.“

Þessi tillaga er nú flutt í fimmta sinn undir forustu þeirrar sem hér stendur, í þriðja sinn undir heitinu tillaga til þingsályktunar um hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu, en hún hét áður tillaga til þingsályktunar um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu.

Þar sem hreyfiseðlar hafa verið teknir upp í tilraunaskyni í a.m.k. einni heilsugæslustöð telja flutningsmenn ástæðu til að farið verði í þá vinnu sem hér er lögð til. Í nefndarvinnu sem innt hefur verið af hendi í heilbrigðisráðuneytinu á síðasta kjörtímabili hefur verið tekið undir þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram. Sömuleiðis má nefna vinnu sem forsætisráðuneytið hafði forgöngu um undir stjórn Þorgríms Þráinssonar. Þar var einnig tekið mjög sterklega undir tillögur um að koma á hreyfiseðlakerfi í heilbrigðisþjónustunni.

Á tímum síhækkandi útgjalda til heilbrigðiskerfisins, þar sem lyfjanotkun eykst stöðugt og aðgerðum fjölgar sífellt á sjúkrahúsum að ég tali ekki um í ástandi eins og ríkir hér í dag þar sem menn verða að horfa til hagkvæmni á allan hátt og þurfa að bregðast við, er full ástæða til að taka upp leið eins og þessa. Auðvitað hafa læknar ráðlagt fólki að hreyfa sig og stunda líkamsrækt og veitt leiðbeiningar um mataræði en það hefur ekki verið gert á markvissan hátt og ekki eftir ákveðnu skipulagi eins og gert er í þeim löndum þar sem hreyfiseðlar hafa verið teknir upp sem er á Norðurlöndunum. Þegar ástandið í samfélaginu er orðið eins og það er núna, margir að missa atvinnuna, fólk er haldið depurð og jafnvel þunglyndi, þá er þetta leið sem hægt er að fara til að vinna gegn og minnka þau áhrif sem slíkt ástand skapar.

Þessi hugmynd er útfærð þannig á Norðurlöndunum að í stað þess að læknir skrifi lyfseðil eða sendi sjúkling í aðgerð á sjúkrahús skrifar hann upp á ráðgjafar- og hreyfingaráætlun, svokallaða hreyfiseðla, og þannig getur sjúklingurinn tekist á við heilsuleysi sitt með eigin atorku og ekki eingöngu heilsuleysi heldur líka vanlíðan.

Eins og ég nefndi áðan aukast útgjöld til heilbrigðiskerfisins stöðugt og leita þarf leiða til að bregðast við því og breyta þeirri hugsun að eina lækningin við kvillum séu lyf eða læknisaðgerð, því að sjúklingar geta oft breytt heilsufari sínu sjálfir með breyttu líferni, mataræði og hreyfingu. Og ég vil nefna að þótt það sé auðvitað ekki alltaf hægt er það vissulega hægt í mörgum tilvikum.

Ýmsir menningarsjúkdómar sem orsakast af óheilbrigðu líferni kosta samfélagið sífellt hærri fjárhæðir. Við höfum fylgst með því í allri umræðunni um offitu og kvilla sem fylgja henni hvaða áhrif það hefur haft á kostnað í heilbrigðiskerfinu. Í greinargerð með tillögunni er það einmitt nefnt að offita meðal fullorðinna hefur tvöfaldast á Íslandi á 20 árum og er komin yfir 20% og hjá níu ára börnum fjórfaldaðist hún á tímabilinu frá 1978–2002. Ofþyngd hefur líka aukist, en 65% fullorðinna hér á landi eru yfir æskilegri þyngd og fylgir því auðvitað fjöldi sjúkdóma. Með þeirri leið sem hér er lögð til er hægt að hvetja til geðræktar um leið og hvatt er til heilsuræktar og eins og ég nefndi áðan tel ég að það sé aldrei mikilvægara en í dag að fara þessa leið.

Í greinargerð með frumvarpinu er útlistað hver helstu verkefni nefndarinnar skuli vera. Menn kynni sér hvernig hreyfimeðferð var komið á í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og hver reynslan hefur verið af þeirri meðferð þar. En samkvæmt því sem ég hef kynnt mér hefur það skilað miklum og góðum árangri að fara þessa leið ekki bara sem meðferð heldur einnig í forvarnaskyni og hefur verið boðið upp á alls kyns átak til að auka heilsu fólks einmitt með aukinni hreyfingu.

Ýmsar breytingar hafa orðið í samfélaginu á undanförnum árum, fólk hreyfir sig minna og núna þegar atvinnuleysi herjar á er mjög mikilvægt að hvetja fólk til athafna, til hreyfingar og til að sinna heilsufari sínu. Þetta mál er því mun brýnna í dag en þegar það var lagt fram í upphafi þings.

Í greinargerðinni er bent á þær leiðir sem Norðurlandaþjóðirnar hafa farið. Þar er líka talað um offitu og hvaða félagslegar afleiðingar offita hefur, svo sem einelti, einangrun og fordóma sem leiða til minni möguleika til náms og atvinnu og til að stofna fjölskyldu. Einnig alla þá sjúkdóma sem rekja má til óheilbrigðra lífshátta, eins og hjarta- og æðasjúkdóma, háan blóðþrýsting, áunna sykursýki, sykursýki eldra fólks og sömuleiðis hefur komið í ljós að með aukinni þyngd barna hefur áunnin sykursýki aukist hjá þeim hópi. Þetta er stór vandi sem við stöndum frammi fyrir.

Ég vil líka minna á að ef hægt er að koma í veg fyrir skurðaðgerðir, sem hefur sýnt sig þar sem þessi leið hefur verið farin, þá er einnig hægt að koma í veg fyrir ýmsa áhættu því að auðvitað hefur allt inngrip eins og skurðaðgerðir hættur í för með sér og spara náttúrlega bæði einstaklingum og samfélaginu mikla fjármuni. Ég hef einmitt nefnt í umræðu um þetta þingmál dæmi um hóp eldri borgara sem beið eftir því að komast í liðskiptaaðgerð og var sendur í vatnsleikfimi og að lokinni þeirri þjálfun þurfti ekki nema helmingur þeirra að fara í aðgerðina. Það sýnir að þessi leið hefur skilað árangri þar sem hún hefur verið farin.

Það er lagt til að margir aðilar komi að þessari vinnu, svo sem sjúkraþjálfarar, íþrótta- og líkamsræktarfyrirtæki, fyrirtæki og stofnanir o.s.frv. og ég tel fulla ástæðu til þess að fyrirtæki sem þurfa núna að taka á og efla liðsheild og hvetja starfsfólk sitt taki upp einmitt svona hreyfiátak innan sinna raða. Menn hafa bent á t.d. gönguferðir, stafgöngu og ýmislegt fleira sem hefur skilað árangri á Norðurlöndunum. Ég hef fylgst með því frá því að ég lagði þetta mál fram fyrst hvernig umræða um þessar leiðir hefur verið á Norðurlöndunum og hún er nánast undantekningarlaust jákvæð. Hér á landi eru líka kjöraðstæður til að fara þessa leið, hvergi eru fleiri sundlaugar, íþróttaaðstaða er mjög góð og hún er ekki alls staðar fullnýtt, hér er margt vel menntað fagfólk sem getur tekið að sér að veita þá fjölbreyttu þjónustu sem þyrfti að standa til boða þegar og ef þessi hreyfiseðlaaðferð verður tekin upp.

Fyrir nokkrum árum eða árið 2005 gerðu nemendur í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun við Endurmenntun Háskóla Íslands lokaverkefni um hreyfingu sem meðferð í heilbrigðisþjónustunni. Verkefnið nefndist „Hreyfiseðill“ – ávísun á hreyfingu, og lauk því með skýrslu um hvernig hægt væri að koma slíku tilraunaverkefni á laggirnar. Heilsugæslan í Garðabæ horfði einmitt til þessa verkefnis þegar hún tók þetta upp í tilraunaskyni. Og vegna þess að þetta verkefni liggur fyrir ætti að vera enn þá auðveldara fyrir heilbrigðisyfirvöld að fara þessa leið. Búið er að vinna þarna hluta af því verki sem þarf að vinna áður en teknir verða upp hreyfiseðlar í heilbrigðisþjónustunni og hægt er að hafa vinnu þessara nemenda í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun sem vinnuplagg í starfi þeirrar nefndar sem lagt er til að sett verði á laggirnar.

Ég hef mælt fyrir þessu máli áður svo ég ætla ekki að orðlengja það en auðvitað væri hægt að tala lengi um þessi mál. Ég ítreka að aldrei hefur verið mikilvægara en nú að taka upp hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu og ég legg því til að hv. þingmenn í heilbrigðis- og trygginganefnd, sem ég mælist til að málinu verið vísað til, skoði málið af alvöru og afgreiði það til þingsins aftur og það verði samþykkt vegna þess að hér er á ferðinni mikið þjóðþrifamál sem hefur sýnt sig að hefur skilað góðum árangri í nágrannalöndum okkar.