136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

8. mál
[15:06]
Horfa

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með smáviðbót sem ég kom ekki að áðan. Varðandi niðurgreiðslur hefur ekki endilega verið gert ráð fyrir að þetta yrði neitt niðurgreitt. Auðvitað gætu sveitarfélög komið til móts við þá sem væru með hreyfiseðla og veitt frítt í sund eða komið á annan hátt til móts við þá. Það væri þá nefndarinnar sem lagt er til að skipuð verði, að skoða hvort koma þurfi til móts við atvinnulausa, lágtekjufólk eða lífeyrisþega. Við getum metið hvort komið er til móts við þessa hópa, annaðhvort með niðurgreiðslu á þjónustunni eða hvort menn fá uppbót á lífeyri meðan þeir eru í meðferðinni. Þetta er ávísun á hreyfimeðferð og í henni felast jafnvel einnig næringarleiðbeiningar. Þetta er því ekki síður meðferð en aðrar heilbrigðismeðferðir, svo að maður haldi því til haga, þess vegna er það enn mikilvægara að tilvísunin sé skrifleg.

Ég var með seðla frá Norðurlöndunum þegar ég mælti fyrir málinu áður til að sýna hvernig þessir hreyfiseðlar líta út þar. Þeir eru alveg staðlaðir eins og umsóknareyðublöð eða læknabréf og þar er fyllt inn í sams konar glugga. Ég get alveg heils hugar tekið undir að það þarf auðvitað að setja upp ýmiss konar meðferð, sérsniðna fyrir ákveðna hópa. Mér finnst það liggja alveg beint við.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir þetta þingmál.