136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

8. mál
[15:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum um tillögu til þingsályktunar um að skipa nefnd til að skoða hreyfiseðla í staðinn fyrir lyfseðla eða innlagnir. Það kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller að það væri forsjárhyggja. Ég tel ekki svo vera. Fólk leitar til læknis vegna þess að það er með einhvern kvilla að eigin mati, einhvern sjúkdóm. Vegna frumkvæðis sjúklingsins er það læknirinn sem leggur til lyfjanotkun eða innlögn á spítala eða annað, t.d. hreyfingu. Mér finnst að læknirinn eigi í rauninni að bregðast við frumkvæði sjúklingsins og það er engin forsjárhyggja heldur er verið að bjóða upp á fleiri leiðir en hingað til hefur tíðkast. Það má ef til vill flokka undir forsjárhyggju, að bjóða ekki upp á hreyfingu sem er stundum mjög góður kostur.

Það er ljóst að við búum nú við mjög óvenjulegt ástand í þjóðfélaginu. Það óvenjulega ástand kallar á óvenjulegar lausnir og ein af þeim er sú að í staðinn fyrir að skrifa upp á lyfseðil sem gefur fólki lyf sem hafa í för með sér alls konar aukaverkanir eða að leggja fólk inn á spítala sem kostar lifandis býsn er vísað á það sem er eðlilegast af öllu, hreyfinguna. Hreyfingin og gott mataræði eru miklu eðlilegra úrræði en að dæla lyfjum í fólk eða setja það í einhverja aðgerð á spítala, og alveg sérstaklega ef það gefur góðan árangur, fyrir utan það hvað það er miklu ódýrari og ánægjulegri leið fyrir sjúklinginn.

Nú er verið að skoða greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu og ég held að það kæmi alveg til greina að þessi kostnaður félli undir það kerfi vegna þess að hægt er að sýna fram á með mjög einföldum hætti að hreyfiseðlar spara heilbrigðiskerfinu og ríkissjóði þar með heilmikla fjármuni. Ekki mun veita af á næstu missirum og árum.

Ég ætla ekki að endurtaka ræðu hv. frummælanda í þessu máli en ég má til með að koma inn á offituna. Offitan er að verða alheimsvandamál. Hún eykur líkur á dauða fyrir aldur fram o.s.frv. Við munum í auknum mæli sjá foreldra grafa börnin sín sem er mjög óeðlilegt ástand og ætti ekki að gerast. Það ættu foreldrar að hafa í huga þegar þeir horfa á börnin sín verða akfeit — ég segi það bara — og þeir ættu að hafa í huga að þeir auka dánarlíkur barnanna sinna og það kallar á aðgerðir. Gagnvart börnum hef ég engar áhyggjur af forsjárhyggju því að börn þurfa forsjá. Þau eru nefnilega ekki fullorðin. Mér finnst allt í lagi að t.d. skólarnir, skólalæknir og skólahjúkrunarfræðingur, skoði nákvæmlega hvort börn séu orðin of feit. Þá verði þau hreinlega sett í meðferð með hreyfingu á vegum skólans.

Hv. frummælandi ræddi um þunglyndi í ræðu sinni. Í mörgum tilfellum þunglyndis eru útivist og göngur sennilega besta úrræðið til að losa fólk undan því. Ég held, sérstaklega í ljósi síðustu atburða, að það muni verða mjög mikilvægt að skora á fólk að stunda útivist, göngu og hreyfingu almennt því að fólk er yfirleitt mjög ánægt þegar það stundar slíkt. Sem betur fer á sér stað mjög ánægjuleg þróun. Á göngustígum bæjarins rekst maður sífellt oftar á gönguhópa, stafgönguhópa o.s.frv., fólk sem nýtur samveru og er að hreyfa sig úti, upplifir sólina og veðrið. Við Íslendingar búum sennilega við besta veðurfar í heimi þótt margir vilji ekki trúa því. Hér er eiginlega aldrei allt of heitt, þ.e. yfir 25–30°C og hér er aldrei eða mjög sjaldan allt of kalt veður, þ.e. undir -25°C eða -30°C. Það er yfirleitt mjög heppilegt veður til fara út að ganga, menn þurfa að klæða sig sæmilega vel en það er hvorki of heitt né of kalt úti.

Ég skora því á hv. heilbrigðisnefnd sem fær málið til umsagnar að samþykkja það sem allra fyrst og leggja til að það verði þegar tekið upp vegna þess að ég held að það sé mjög brýnt að spara fjármuni og koma í veg fyrir hugsanlegt þunglyndi sem gæti leitt af þeirri stöðu sem við búum við í dag. Það sparar lyfjagjöf sem kostar gjaldeyri yfirleitt og það sparar dýrar aðgerðir sem er mikill kostnaður fyrir ríkissjóð. Það veitir ekki af að létta af honum nú um þessar mundir.