136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

tekjuskattur.

41. mál
[15:40]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Grétar Mar Jónsson og Jón Magnússon.

Við höfum flutt þetta mál áður hér í hv. Alþingi, þingmenn úr Frjálslynda flokknum. Frumvarpið gengur út á að tryggja heimild í skattalögum til þess að menn sem sækja vinnu um langan veg megi sem launþegar draga þann kostnað frá tekjum áður en skattlagt er, þ.e. að sá ferðakostnaður sem menn leggja sérstaklega í til að stunda vinnu sé frádráttarbær frá tekjum áður en skattar eru lagðir á þær. Þessu ákvæði eru sett ákveðin takmörk. Í fyrsta lagi þarf viðkomandi að leggja fram gögn um kostnað vegna atvinnusóknar, akstursbók ef hann notar eigin bifreið, flugfarseðla, ferjuseðla o.s.frv. Umræddur kostnaður þarf á heilu ári að vera hærri en 200 þús. kr. til að viðkomandi eigi rétt á skattafrádrætti. Kostnaður undir 200 þús. kr. fæst ekki dreginn frá tekjum áður en skattlagt er því að allir hafa jú einhvern kostnað af því að sækja vinnu.

Umræddum kostnaði er einnig sett hámark. Í frumvarpinu er lagt til að hámarkið sem draga megi frá á ári hverju sé 700 þús. kr. og er þá m.a. tekið tillit til þess að bensínkostnaður hefur hækkað mjög og ýmis annar kostnaður við ferðalög hefur hækkað á milli ára — hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér með þróun bensínverðs og annarra orkugjafa, það vitum við ekki. En við teljum að full rök séu fyrir þeim kostnaði sem menn mega draga frá, hann er þá að hámarki 700 þús. kr. Ef menn nota eigin bifreið verða menn að færa akstursbók og leggja fram gögn sem staðfesta að um atvinnusókn sé að ræða en ekki önnur ferðalög sem ekki tengjast vinnu.

Það er þekkt fyrirkomulag að menn færi akstursbók, t.d. þeir sem fá greitt frá fyrirtækjum. Við alþingismenn fáum greitt fyrir ferðalög þegar við þurfum að sækja ákveðna fundi í kjördæmi okkar. Við eigum rétt á því að færa akstursbók vegna ferðalaga sem beinlínis eru tengd vinnu okkar og fáum greiðslu samkvæmt því, en við verðum að sýna kostnað á móti. Ef skattyfirvöld taka mark á þeim kostnaði sem við leggjum út fyrir er sambærileg upphæð varðandi aksturspeningana skattfrjáls en það sem út af stendur bætist á okkur sem tekjur.

Eins yrði það í þessu tilviki. Sá sem vill fá að draga kostnað frá tekjum verður að sanna það með skattframtali sínu og fylgigögnum að sá kostnaður sé réttmætur og rétt færður. Skattyfirvöld fara þá yfir það hvort rétt sé frá greint og menn geta þá lent í úrtaki eins og gerist og gengur þegar skattyfirvöld fara yfir það hvort rétt sé talið fram hjá viðkomandi aðila. Við erum því ekki að leggja til eitthvert fyrirkomulag sem ekki er þekkt í kerfinu. Fyrirkomulagið er þekkt en það hefur hingað til einungis náð yfir það að einhver annar greiði ferðakostnaðinn, þ.e. atvinnurekandinn en ekki launþeginn sjálfur.

Við leggjum til, hæstv. forseti, að ákvæðið verði víkkað út og nái yfir venjulega launþega sem ferðast um langan veg til að sækja vinnu og hafa af því verulegan kostnað. Við gerum ekki greinarmun á því hvort sá kostnaður verður til með flugferðum, ferjufargjöldum, langferðabifreiðagjöldum eða akstri á eigin bifreið, eingöngu að kostnaðurinn sé sannaður. Menn þurfa því að halda utan um gögn sín og færa fram rök fyrir því að högum þeirra sé þannig háttað að atvinnusókn þeirra sé dýrari en annarra. Við teljum að um sanngirnismál sé að ræða enda sé um að tefla kostnað sem til fellur varðandi öflun atvinnutekna. Markmiðið er að ná sérstaklega til þeirra sem þurfa að sækja vinnu um langan veg og bera af því mikinn kostnað.

Oft hefur verið þörf á því að flytja þetta mál en nú er sérstaklega brýnt að fá það afgreitt hér í hv. Alþingi og vonandi þá sem lög þegar þar að kemur. Ég vænti þess að þau orð hæstv. 1. forseta þingsins, um að almennt eigi að vinna að því að afgreiða mál, verði til þess að málið verði tekið til afgreiðslu við 2. umr. og síðan 3. umr. og væntanlega samþykkt sem lög.

Hæstv. forseti. Ljóst er að brátt verður verulega aukið atvinnuleysi hér á landi, mun meira atvinnuleysi en við höfum átt að venjast og jafnvel meira atvinnuleysi en við höfum áður séð, alla vega á síðustu áratugum. Líkur eru á því að atvinnuleysið vaxi mjög hratt á næstu mánuðum, margt bendir til þess þó að ég voni vissulega að það fari ekki fram með þeim hraða sem menn spá. Ég hef heyrt stjórnarliða nefna að atvinnuleysi hér á landi geti á næstu mánuðum farið yfir 10%. Ég vænti þess að við þurfum ekki að vera svo svartsýn. En hvað um það, allar horfur eru á því að störfum fækki verulega. Störfum hjá bönkum og fjármálastofnunum hefur fækkað, störfum í byggingariðnaði, verkamannavinnu við byggingariðnað, mun fækka. Í framhaldi af því mun störfum iðnaðarmanna fækka þegar saman dregur á byggingarmarkaðnum. Önnur þjónustustörf sem tengjast venjulegri atvinnustarfsemi þar munu einnig dragast saman þó það fari kannski hægar en samdrátturinn hjá byggingar- og iðnaðarmönnum.

Síðast en ekki síst er rétt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að enn sem komið er þráast stjórnvöld við að lagfæra þá stöðu í atvinnumálum sem þau hafa tök á. Á ég þá við það að menn vilja ekki auka þorskaflann, en allt bendir til þess að mjög eðlilegt sé að gera það við aðstæður eins og þær eru nú. Þar koma til bæði líffræðilegar forsendur, eins og sjómenn líta á þær, og ekki síður þær forsendur að við þurfum nýjar tekjur. Nú sem aldrei fyrr þurfum við auknar tekjur. Ég sagði því í upphafsorðum mínum að oft hefði verið þörf á því að setja inn slík ákvæði en nú væri enn frekari nauðsyn til þess og hefði aldrei verið brýnna.

Ég vænti þess vissulega að stjórnvöld sjái innan tíðar skynsemina í því að auka þorskaflann og gefa þjóðfélaginu á þann hátt tækifæri til að auka tekjur og auka atvinnu. Það er sú aðgerð sem við eigum auðveldast með að framkvæma og þurfum minnstu til að kosta. Við þurfum einfaldlega að taka þá ákvörðun að auka veiðina. Við eigum öll tæki til þess að ná í aflann, mannskap, skip og vinnslustöðvar, og markaðir eru fyrir hendi. Þar er auðveldast að bregðast við og auka atvinnuna. Eins og nú horfir kallar mjög margt á það að það frumvarp sem við ræðum um verði samþykkt. Það mundi auðvelda fólki sem lendir í því að missa vinnuna að sækja vinnu á milli staða um lengri veg. Ekki er vanþörf á eins og horfurnar eru í landinu um þessar mundir.

Hér er sem sagt lagt til að launþegar fái þennan rétt. Ef atvinnuleysi eykst hér á landi gæti það orðið til þess að menn sjái sér meiri hag í því að sækja vinnu á milli staða en ella væri. Það gæti þá dregið úr því að menn leiti inn á atvinnuleysistryggingar og atvinnuleysisbætur en aukið líkur á því að menn sjái sér hag í því að sækja vinnu um lengri veg. Við verðum að forðast atvinnubrestinn sem fram undan er eins og mögulegt er og þessi tillaga getur virkilega gagnast í því.

Sjávarbyggðirnar urðu fyrir niðurskurði í þorskafla á síðasta ári og einnig á þessu ári og var þá af hendi ríkisstjórnarinnar talað um sérstakar mótvægisaðgerðir sem gætu orðið til þess að styrkja stöðu þeirra og þess fólks sem byggi á svæðum þar sem samdráttur í atvinnumöguleikum hefði orðið. Frumvarpið sem hér er mælt fyrir gagnast mjög vel í því tilfelli þegar menn þurfa að horfa á mótvægisaðgerðir til að halda uppi atvinnu og auka atvinnusókn og einnig til að tryggja að fólk nái þá betri rauntekjum út úr vinnunni þó það þurfi að kosta til hennar talsverðum fjármunum.

Lagt er til að umræddur frádráttarliður verði settur inn í skattalögin, að menn sem sækja vinnu um langan veg megi draga ferðakostnað frá ef þeir geta sýnt fram á að hann sé umfram 200 þús. kr. á ári en þó að hámarki 700 þús. kr. á ári. Ég er ekki viss um að menn hafi almennt stöðu til að sækja upp í þá upphæð en þó kann það að vera í einstaka tilfellum. Fólk sem býr á Reykjavíkursvæðinu gæti séð sér hag af því að sækja vinnu á Austurlandi og þyrfti þá að fljúga þangað á sunnudagskvöldi og aftur til baka á föstudagskvöldi en það er enginn smákostnaður sem fylgir því að fljúga á milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Ég veit að hver og einn í þessum sal getur auðveldlega reiknað það út í hvaða upphæðir það stefnir á ári ef menn ætla að stunda vinnuna sína vel og þurfa að haga atvinnu sinni svo sem ég nefndi í þessu dæmi.

Ég vænti þess að þetta þingmál fái góða og efnislega umfjöllun í nefnd og þegar því verði lokið muni málið verða með þeim hætti, þeim úrbótum, sem nefndarmenn vilja. Vel má vera að menn vilji setja einhverjar frekari skorður og útfæra hlutina með einhverri viðbótarútfærslu. Til dæmis mætti velta því fyrir sér varðandi akstur eigin bifreiðar að miða við að lágmarki einhverja ákveðna kílómetra sem menn yrðu að sækja vinnu til þess að eiga rétt á því sem hér er lagt til. Ég held ég fari rétt með það að þeir þingmenn sem keyra daglega til Akraness fái þann ferðakostnað viðurkenndan þegar þeir sækja vinnu á Alþingi. Við höfum því fordæmin ákaflega nálægt okkur, hæstv. forseti, og þurfum ekki að leita yfir lækinn að slíkri viðmiðun, ef það væri eitthvað sem þingmönnum fyndist að ætti að vera til viðmiðunar í þessu máli.

Efnislega legg ég sérstaka áherslu á það að við erum hér að hvetja til þess að fólk leiti lausna við að reyna að halda uppi atvinnu og afla sér tekna. Það er stórt mál við núverandi aðstæður að þannig sé unnið á hv. Alþingi að við reynum allt sem við getum til að tryggja að sem mest atvinna haldist uppi í landinu og fólk sjái sér hag í því að stunda vinnu hvar svo sem hún er í boði. Þar með minnkar atvinnuleysið, bætur og kostnaður okkar vegna atvinnuleysis. Það er ekki síður mikilvægt, hæstv. forseti, að fólk afli tekna því að allir greiða jú skatta og skyldur af tekjum sínum til ríkissjóðs eins og við þekkjum öll.

Í frumvarpinu eru margar hvetjandi hliðar. Það er allt að vinna fyrir ríki og ríkissjóð að halda uppi atvinnu annars vegar og halda uppi tekjum — okkur mun ekki veita af í núverandi krepputali að komast út úr þeim vandræðum sem við höfum því miður komið okkur í. Þó að deila megi um það hver eigi þar mesta sök og hver aðdragandinn var er ljóst að íslenska þjóðin er stödd frammi fyrir því að þurfa að takast á við hörmulega niðurstöðu í þeim efnum, hvort sem við erum að tala um færri hundruð milljarða eða fleiri. Það er ljóst að þær byrðar verða þungar til næstu ára sem á þjóðinni eru að lenda. Okkur ber sem alþingismönnum að koma fram með allar þær hugmyndir sem við teljum að megi verða til bóta í þeim efnum. Hér er verið að leggja eina hugmynd í þann farveg sem getur orðið til þess að auka atvinnusókn á landinu og hvetja til hennar og gera fólki mögulegt að sækja vinnu þó að því fylgi talsverður kostnaður og ferðalög. Við verðum að horfa á þetta raunhæft út frá þessum sérstöku forsendum. Ég segi því enn og aftur að þessi tillaga hefur aldrei átt betur við en einmitt nú vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í þjóðfélaginu.

Ég vil einnig láta þess getið að slík tillaga sem við flytjum hér er þekkt í lögum annarra landa, m.a. í Noregi, og hægt er að sækja fyrirmyndir þangað um hvernig draga megi kostnað vegna atvinnusóknar frá tekjum áður en skattlagt er. Ég hvet til þess að menn líti frumvarpið jákvæðum augum og sérstaklega við núverandi ástand eins og ég hef hér rakið. Full ástæða er til þess, og aldrei fremur en nú, að ýta undir að þetta frumvarp verði samþykkt. Það mundi færa launþegum aukinn rétt og búa til frádráttarreglur þegar menn sækja sér atvinnu og tekjur og það er hagur þjóðfélagsins í heild að við höldum uppi sem allra mestri atvinnu og sem mestri tekjuöflun. Það mun fleyta okkur í gegnum erfiðleika í framtíðinni að halda uppi atvinnustiginu og tekjum fólksins. Nóg er nú samt um byrðarnar sem lenda á íslensku þjóðinni að því er varðar kostnað af ýmsum ástæðum sem hafa fylgt þeirri stöðu sem við erum komin í, kostnað vegna lánsfjármagns, hvort sem það eru gengistryggð lán eða vísitölutryggð lán. Þetta eru hlutir sem kristallast sem aldrei fyrr með þeim hætti að okkur ber að taka alveg sérstaklega á þessum málum.

Ég vil vekja athygli á því, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram sérstök þingmál sem snúa að tvennu er varðar lánamál fólks. Annars vegar að unnið verði markvisst að því að afnema verðtryggingu á lánsfé — að við stefnum í sambærileg lánakjör og lánafyrirgreiðslu og þekkist í löndunum í kringum okkur. Við höfum einnig lagt fram þingmál um það að þegar fólk breytir lánasamningum sínum eða sækir um húsnæðislán eða íbúðalán þurfi ekki að greiða af slíkum gjörningum stimpilgjöld. Hvort tveggja er til þess fallið að létta álögur á íslenskan almenning vegna fjármagnskostnaðar sem eru úr öllu hófi í dag. Öllum hlýtur að vera orðið löngu ljóst að þessir hlutir eru ekki með neinu sambærilegu lagi og gerist í öðrum löndum. Aldrei hefur verið meiri nauðsyn en nú, hæstv. forseti, að vera með aðgerðir sem styrkja launþegana og styrkja vinnumarkaðinn.

Ég verð, hæstv. forseti, í lok máls míns að lýsa furðu minni á þeirri ákvörðun Seðlabankans í dag að hækka stýrivextina upp í 18%. Mér finnst það afar slæm aðgerð og tel að hún vinni gegn því að halda uppi atvinnustiginu í landinu og hjálpa atvinnufyrirtækjunum og fólkinu til að komast út úr þeim þrengingum sem það stendur nú frammi fyrir. Ég átta mig alls ekki á því á hvaða vegferð Seðlabankinn er og ekki á því umboði ríkisstjórnarinnar að samþykkja þá vegferð sem Seðlabankinn boðar í dag. Því þessi verk eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og það þýðir ekkert fyrir stjórnarflokkana að skorast undan því eða benda á Seðlabankann sem eitthvert sérstakt fyrirbæri sem sé lausríðandi eins og veikt hross um þjóðfélagið sem enginn hafi stjórn á.