136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

tekjuskattur.

41. mál
[16:02]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps og ég ætla ekki að fara yfir það sem slíkt. Skattafslátturinn gæti orðið um 500 þús. kr. og ég held að allir átti sig á að það getur hjálpað til og lagað stöðu þeirra sem þurfa daglega að fara langan veg, eins og frá Suðurnesjum á höfuðborgarsvæðið eða öfugt. Það er jafnlangt frá Sandgerði til Reykjavíkur og frá Reykjavík til Sandgerðis og það sama á við um Borgarnes og Árborgarsvæðið. Þetta er að verða eitt stórt atvinnusvæði en fólk á lágu kaupi vílar það dálítið fyrir sér vegna kostnaðar við að koma sér til og frá vinnu og kannski bara þeir hæst launuðu sem treysta sér til þess.

Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir þetta frumvarp en einmitt nú þar sem atvinnuástandið mun breytast mjög hratt á næstunni. 18% stýrivextir hjálpa fyrirtækjum í atvinnurekstri og almenningi ekki á næstunni og munu sennilega verða til þess að drepa í sumum sem áttu einhverja smávon og fleira fólki verði því sagt upp um mánaðamótin en mátti eiga von á og er nú nóg samt. Talað er um að 25% af fyrirtækjum í landinu muni ekki borga út um næstu mánaðamót. Ég hefði haldið að þar sem stjórnvöld gortuðu fyrir einungis ári síðan af því að mótvægisaðgerðir þeirra væru þær mestu og bestu sem gerðar hefðu verið í lýðveldissögunni að þá væri alvöru mótvægisaðgerð að samþykkja frumvarpið og gera að lögum.

Endalaust er hægt að tala um ástandið í þjóðfélaginu núna, það er ömurlegt og óvissa um fjárlög og nánast allt. Tekjur þjóðarinnar á næsta ári og skuldir hennar eru enn þá óljósar og allt í þeim dúr. Við flytjum því frumvarp til að reyna að koma til móts við fólk og hjálpa og ég vonast til þess að þeir sem mynda ríkisstjórnina, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, sjái sóma sinn í því að standa með okkur í þessu og gera frumvarpið að lögum. Þetta er kannski dropi í hafið en þó spor í rétta átt.