136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga –– stýrivaxtahækkun.

[13:37]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið í garð Færeyinga fyrir þeirra rausnarlega tilboð og væntanlega ákvörðun um lánveitingu til okkar og er ekkert ofmælt í þeim efnum sem hér hefur verið sagt.

Mig langar að víkja að öðru sem ég held að sé meira aðkallandi að fá botn í í þinginu og það er stýrivaxtahækkunin sem ákveðin var í gær. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því í útvarpsfréttum að vaxtahækkunin væri í samræmi við samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og staðfesting á því að tilgangurinn með hækkuninni væri að styrkja krónuna. Það sama kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra í hádegisfréttum í dag þar sem ráðherrann sagðist ekki geta annað en stutt þessa stýrivaxtahækkun.

Hins vegar lýsti hæstv. menntamálaráðherra því yfir í viðtali við Stöð 2 í gær að sér fyndist stýrivaxtahækkun ekki heppileg og er afar óhress með hana. Ríkisstjórnin situr í umboði þingsins þannig að það sem hún gerir þarf að vera þingmeirihluti á bak við. Mig langar að forvitnast um það hjá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna hvort stýrivaxtahækkunin sé liður í aðgerð sem ríkisstjórnin hafi samþykkt og stjórnarflokkarnir standi á bak við. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að það sem ríkisstjórnin gerir og semur um við erlenda stofnun eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé í umboði meiri hluta þingsins. Það gengur auðvitað ekki að ríkisstjórnin tali tveimur tungum í þessu máli. Annars vegar koma tveir ráðherrar og lýsa yfir stuðningi við aðgerðina og telja hana nauðsynlega. Hins vegar kemur einn ráðherra og varpar allri ábyrgð af herðum sér yfir á herðar annarra. Ég fer fram á það, virðulegur forseti, að botn fáist í málið.