136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga –– stýrivaxtahækkun.

[13:40]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þakklæti til Færeyinga fyrir að hafa sýnt okkur þann vinarhug í verki að styðja okkur á þessum erfiðu tímum. En ég held að það sé líka mikil ástæða til þess að ræða það mál sem kom fram í gær, þ.e. stýrivaxtahækkunina. Ég fullyrði, alla vega fyrir mína hönd, að við vorum ekki upplýstir um það, formenn stjórnarandstöðuflokkanna, að slík skilyrði væru inni í samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og umsókn um lán frá honum að hækka ætti stýrivexti upp í 18%, um 50% frá því sem áður hafði verið ákveðið. Ég get sagt það hreinskilnislega að við forustumenn stjórnarandstöðunnar lýstum því sérstaklega yfir að við teldum að halda ætti stýrivöxtunum alla vega óbreyttum við núverandi aðstæður.

Ég sá í Morgunkorni Glitnis að vísasta leiðin til að lækka vexti einn, tveir og þrír væri bara að lýsa því yfir að Íslendingar væru á leiðinni inn í ESB og tækju upp evruna. Það mundi strax hafa áhrif. Ég spyr: Í hvers umboði tala greiningardeildir bankanna núna? Þetta eru ríkisbankar og við höfum notið leiðsagnar greiningardeilda þeirra á undanförnum árum og höfum nú lent í dæmalausu klúðri og vandræðagangi í fjármálum þess vegna. Ég spyr: Ef svona „patent“-lausn er fyrir hendi, (Forseti hringir.) hvar voru þessir menn þegar við fórum í þann vandræðaferil sem við erum í nú?