136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga — stýrivaxtahækkun.

[13:54]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir mál þeirra þingmanna sem hafa fært þakkir til Færeyinga fyrir þeirra vinarhug og það sem landstjórnin hefur sett fram um að þeir muni koma að því að lána Íslendingum á þessum hörðu tímum hjá okkur.

Það er ljóst að allir flokkar nema Vinstri grænir kölluðu eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það var jafnframt ljóst að í því samstarfi sem tekið var upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mundi felast að hækka þyrfti stýrivexti. Það kom hins vegar töluvert á óvart að sú hækkun þyrfti að vera jafnmikil sem raun bar vitni í gær, þ.e. að grípa þyrfti til svo róttækra ráðstafana.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að gjaldeyrismarkaðurinn komist á rétt ról og að það gerist sem fyrst. Þetta er liður í því að það gerist og við skulum vona að stýrivaxtahækkunin hafi tilætluð áhrif þannig að eftir frekar skamman tíma verði hægt að lækka stýrivexti og atvinnulífið eigi bærilega möguleika á að lifa í gegnum þá kreppu sem við göngum nú í gegnum. Það skiptir máli að atvinnulífið komist sem fyrst í gang og það eru okkar meginhagsmunir að svo verði.

Ég ítreka það að menn vildu, og (Forseti hringir.) töldu það einu leiðina, að farið yrði í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og að því stóðu flestallir flokkar.