136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg.

75. mál
[14:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Einstaklingar og félagasamtök hafa á undanförnum missirum aftur og aftur orðið að grípa til þeirrar nauðvarnar að höfða mál fyrir dómstólum til að verja náttúru Íslands fyrir atgangi stóriðjufyrirtækja og Vegagerðar. B-leið Vestfjarðavegar númer 60 um Barðaströnd milli Bjarkarlundar og Reykhólahrepps er ein þeirra framkvæmda sem rataði fyrir dómstóla. En á þeirri leið er áætlað að leggja veginn í gegnum Teigsskóg sem er upprunalegur og ósnortinn birkiskógur á náttúruminjaskrá og yfir þveran Gufufjörð og Djúpafjörð og svo nærri gamalgrónum arnarsetrum að sérfræðingar telja einsýnt að þau verði afrækt úr ábúð fyrir vikið.

Skipulagsstofnun lagðist á sínum tíma gegn þessum framkvæmdum og taldi þær hafa umtalsverð og neikvæð umhverfisáhrif. Í því dómsmáli sem hér er vitnað til var tekist á um lögmæti úrskurðar fyrrverandi umhverfisráðherra sem sneri við þeirri afstöðu Skipulagsstofnunar. Það voru landeigendur, Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglavernd sem höfðuðu málið og þann 26. september síðastliðinn felldi Héraðsdómur Reykjavíkur þann úrskurð ráðherra úr gildi sem fjallar um þennan umdeilda kafla milli Bjarkarlundar og Reykhólahrepps.

Bent hefur verið á, frú forseti, að réttara væri að leggja veginn á þessum kafla í göngum undir Hjallaháls og Gufudalsháls og að það væri í samræmi við framtíðarsýn um vegagerð á Vestfjörðum. Trúlega er það ekki ódýrasta lausnin en gangalausnin hefur þó hvorki verið skoðuð í umhverfismati né lagt mat á endanlegan kostnað við hana. Það eina sem heyrist er að hún sé of dýr. Ég spyr ekki aðeins um framkvæmdakostnaðinn heldur um ávinninginn í heild. Ég spyr um viðhald og snjómokstur. Ég spyr um umferðaröryggi, arðsemi af styttingu vegarins um eina 30 kílómetra og bendi á að mikil verðmæti eru fólgin í ósnortinni náttúru á Vestfjörðum.

Nú má enginn túlka þessi orð mín sem andstöðu við vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum. Samgöngubætur á Vestfjörðum eru forgangsmál og varða landsmenn alla. En þau má hins vegar ekki leysa á kostnað ósnortinnar náttúruperlu sem Teigsskógur er eða á kostnað aldagamalla arnarsetra. Vegagerðin tók hart til varna í þessu máli og hefur lýst vonbrigðum með niðurstöðuna og því er eðlilegt að spyrja ráðherra hér og nú um viðbrögð.

Ég dreg enga dul á að ég tel að Vegagerðin eigi að sætta sig við niðurstöðu héraðsdóms og hef bent á að hún er í samræmi við upphaflega afstöðu Skipulagsstofnunar og í samræmi við framtíðaráform um vegagerð á Vestfjörðum. Ég bendi því á að í niðurstöðu dómsins felast tækifæri fyrir samgönguyfirvöld til að endurskoða þetta vegarstæði, leita sáttar um það og nýta tímann til að setja gangalausnina í umhverfismat. Og spurningin er, frú forseti: Hvernig hyggst ráðherra bregðast við dómi héraðsdóms um þetta efni?