136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg.

75. mál
[14:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil sömuleiðis fagna niðurstöðu hæstv. samgönguráðherra að senda þetta mál áfram til Hæstaréttar. Þetta er mjög sérkennilegt mál að því leyti að þarna eru heimamenn sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum og hafa allir stutt þá vegarlagningu sem áætluð var og þekkja hvað best til náttúrunnar og bera hagsmuni hennar hvað mest fyrir brjósti. Ég hef litið þannig á að þarna hafi nokkrir einstaklingar farið offari í sambandi við þetta mál og á stundum hefur mig grunað að menn væru bókstaflega að reyna að sækjast eftir einhverjum bótum sjálfum sér til handa svo ég sé svolítið grófur. (Gripið fram í.) Ég ætla rétt að vona að það hafi ekki verið ástæðan. En sjálfur er ég þeirrar skoðunar að þetta sé eingöngu til að tefja mjög mikilvægar framkvæmdir sem er löngu orðið tímabært að ráðast í.