136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg.

75. mál
[14:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka það fram vegna orða Vestfirðinga sem hér hafa talað að málflutningi í þessu máli er lokið. Það þýðir ekkert að standa hér í ræðustóli Alþingis og halda áfram að deila við dómarann. Niðurstaða er fengin og ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að það er ekkert eðlilegra, ef menn svo kjósa, en að fara með málið fyrir Hæstarétt.

Ég vek athygli á að það voru fleiri kostir í boði og enn er sá kostur í boði að fara með málið fyrir Hæstarétt en nýta tímann til þess að setja gangaleiðina í umhverfismat og til að ganga úr skugga um raunverulegan kostnað við hana, því að við vitum það sem hér erum inni að bent hefur verið á það af mætri verkfræðistofu og verkfræðingi hér í borginni sem hefur unnið við vegagerð áratugum saman að útreikningar Vegagerðarinnar hvað varðar þessa gangaleið (KHG: Það er málsaðili.) þurfa ekki endilega að standast. Já, hv. þingmaður, það er málsaðili. Það er líklega einn af þessum málsaðilum frá Fuglavernd sem eiga heima á þessu svæði eða hvað? Ég vil benda á að þeir sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson talaði um áðan eru meðal annarra landeigendur á því svæði sem vegurinn á að fara um, landeigendur sem munu ekki vera tilbúnir til að selja land sitt, landeigendur sem núna bíða eignarnáms sem í uppsiglingu hlýtur að vera.

Ég skora á hæstv. ráðherra að sitja ekki með hendur í skauti, og allra síst þegar þau brýningarorð eru uppi um að ekki megi tefja eitt eða neitt, heldur nýta tímann og fara með gangaleiðina í mat og láta finna út raunverulegan kostnað. Það er alveg klárt að það þarf að bæta vegina þarna en það má ekki gera það á kostnað viðkvæmrar náttúru og af skammsýni einni. (KHG: 3 milljarðar.)