136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Gjábakkaveg.

76. mál
[14:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það veldur mér nokkrum vonbrigðum ef hv. þingmenn Norðurlandskjördæmis vestra hafa ekki áhuga á vegabótum nema í sínu kjördæmi, því að þeir fóru úr salnum einir tveir. En miklar deilur hafa staðið … (GAK: Sá þyngsti situr eftir.) Já, hann situr eftir og það er góð vigt í því. Miklar deilur hafa staðið um fyrirhugaðan Gjábakkaveg, frú forseti, sem er ætlað að koma í stað núverandi Kóngsvegar milli Þingvalla og Laugarvatns og framkvæmdir munu hafnar við. Það komu nokkrar leiðir til greina í upphafi og m.a. sú að byggja núverandi Kóngsveg upp og bæta hann og töldu náttúruverndarar það besta kostinn. Vegstæðið sem valið var er hins vegar umdeilt og færð hafa verið haldgóð rök fyrir því að áformaður vegur komi til með að valda óafturkræfum spjöllum á landslagi og náttúru svæðisins og jafnvel mengun í lífríki Þingvallavatns. Vatnalíffræðingar með dr. Pétur Jónasson í broddi fylkingar hafa varað eindregið við þeirri hættu sem Þingvallavatni og vatnasviði þess getur stafað af aukinni niturmengun. Því hefur verið lýst þannig að í stað blátærs fjallavatns geti Þingvallavatn orðið grænt og gruggugt af þörungavexti og því miður, frú forseti, benda nýjar rannsóknir á tærleika Þingvallavatns til þess að hann sé að minnka. Hér vísa ég til nýrra rannsókna sem hafa verið birtar og Náttúrufræðistofa Kópavogs vann á árinu 2007. Samanburður við eldri mælingar frá árunum 1974–1982 sýna að rýni eða gegnsæi vatnsins hefur minnkað úr 10–12 metrum að meðaltali niður í aðeins 6 metra í október 2007. Þessar vísbendingar um breytingar á vatnsbolnum á aðeins 25–30 ára tímabili eru skýr viðvörunarmerki sem taka ætti alvarlega. En það náðist ekki sátt um vegstæðið í þessu máli frekar en í Teigsskógsmálinu og því neyddist Pétur Jónasson vatnalíffræðingur, doktor og prófessor emeritus, til að stefna Vegagerðinni og það gerði hann í mars sl. Málflutningur er hins vegar ekki fyrirhugaður fyrr en 17. nóvember. Hann óskaði því eftir því 30. maí sl. að framkvæmdum yrði frestað þar til niðurstaða héraðsdóms lægi fyrir. Ég tel þetta eðlilega ósk vegna þess að framkvæmdir við vegagerðina eru óafturkræfar að miklu leyti.

Ég spyr um viðbrögð hæstv. ráðherra við þessum erindum og einnig um framkvæmdir við veginn. Hvenær hófust þær? Hvað verður um núverandi Gjábakkaveg þegar nýr vegur hefur verið lagður? Ég spyr um þá ósk að framkvæmdum verði frestað þar til niðurstaða fæst í málinu og hvort ráðherra hafi brugðist við henni og þá hvernig. Og loks hvort ráðherra telji að sú ákvörðun að ganga frá verksamningum geti skapað ríkinu skaðabótaskyldu falli dómsmál málshöfðanda í vil.