136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

fæðingarorlof kvenna sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun.

81. mál
[14:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða um fæðingarorlof kvenna sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun. Eins og kunnugt er var lögum breytt undir lok síðasta þings í maí eða júní 2008 og einhleypum konum gert heimilt að gangast undir tæknifrjóvgun hér á landi þó að við höfum auðvitað mörg dæmi þess að konur hafi leitað eftir slíkri þjónustu í útlöndum áður.

Lög um fæðingarorlof hafa þó ekki verið endurskoðuð sérstaklega með tilliti til þessara breytinga þannig að einhleypar konur sem gangast undir tæknifrjóvgun eiga rétt á sex mánuðum eins og annað foreldrið samkvæmt lögunum um fæðingar- og foreldraorlof.

Spurning mín snýst um hvort hæstv. félagsmálaráðherra telji vænlegt að skoða að lögum um fæðingar- og foreldraorlof verði breytt þannig að einhleypar konur sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun og eiga von á barni með þeim hætti geti sótt um níu mánaða fæðingarorlof. Þannig njóti börn þeirra níu mánaða samvistar við foreldri sitt þótt aðeins sé einu foreldri til að dreifa.

Ég veit að menn hafa ólíka sýn á lög um foreldra- og fæðingarorlof en líklega voru þau sett ekki síst til að jafna rétt foreldra til samvista með börnum sínum. Sú hugsun hefur verið höfð í heiðri áfram í þeirri löggjöf og enn fremur hefur hún snúist um rétt barna til að eyða tíma með báðum foreldrum sínum. Þessi tilvik eru annars eðlis. Við vitum að í lögum um foreldra- og fæðingarorlof er kveðið á um ef annað foreldrið deyr áður en barnið nær 18 mánaða aldri getur hitt foreldrið sótt um þann rétt þannig að barnið fái níu mánuði með því foreldri sem eftir lifir. Hér höfum við sannanlega bara eitt foreldri inni í myndinni þannig að það snýst ekki um að brjóta rétt á hinu foreldrinu.

Mig langar til að kanna hvort hæstv. félagsmálaráðherra telur ástæðu til að endurskoða lögin og veita þeim konum sem gangast undir tæknifrjóvgun heimild þannig að þær geti sótt um að fá lengra fæðingarorlof því að eins og við þekkjum er börnum það ómetanlegt að fá lengri tíma heima með foreldri sínu. Ég held að réttur þeirra sé ekki síst það sem við þurfum að hafa í huga í þessum efnum.