136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[11:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns nota tækifærið og þakka forsætisráðherra fyrir skýrslu hans um stöðu efnahagsmála og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nú þegar ríkisstjórn Íslands hefur tekið þá skynsamlegu ákvörðun að leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna stöðunnar sem upp er komin í íslensku efnahagslífi blasir við ný staða hér á landi. Staða þjóðarbúskaparins er allt önnur og verri en hún var fyrir ekki lengri tíma en mánuði síðan. Allar áætlanir í rekstri ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og fjölskyldna eru í uppnámi. Þess vegna er nauðsynlegt að stokka spilin upp á nýtt og taka ákvarðanir um hvernig leysa beri úr vandanum sem við blasir og hvernig eigi að haga uppbyggingarstarfinu sem fram undan er.

Hagfræðiprófessorarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson bentu á það í grein í Morgunblaðinu á mánudag að líkja mætti ósköpunum sem hér hafa dunið yfir á síðustu vikum við náttúruhamfarir og undir þá lýsingu er óhætt að taka. Fjármálakerfið er hrunið, gengi gjaldmiðilsins er hrunið, vextir eru himinháir, verðbólga líka, eignir brenna upp, fasteignaverð fellur, viðskipti okkar við útlönd eru í uppnámi, við eigum í deilum við önnur ríki, námsmenn eru í kröggum og svo mætti lengi telja og allt hefur þetta gerst á örskömmum tíma.

Engin ástæða er til að draga fjöður yfir það að eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis sem leitt hefur til stöðunnar sem uppi er og þess að Ísland hefur þurft að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð. Á næstu missirum er fyrir séð að byrðarnar sem þjóðin þarf að bera verða þyngri en áður. En almenningur og fyrirtæki í landinu eiga ekki að bera þær ein. Ríkið og sveitarfélögin þurfa þess ekki síður. Þótt halda megi því fram með góðum rökum að ýmsir hafi gengið of hratt um gleðinnar dyr í góðærinu þá eru hvorki ríki né sveitarfélög saklaus af því að hafa tekið þátt í gleðinni.

Sú aðstoð sem óskað hefur verið eftir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kallar á nýja efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ríkisfjármál þarf að endurskoða nánast frá grunni. Fjármálakreppan sem nú geisar mun hafa það í för með sér að tekjur ríkisins munu dragast verulega saman. Því er ljóst að grípa þarf til aðgerða til þess að endar náist saman í ríkisfjármálunum. Þar eru tvær leiðir einkum nefndar. Önnur er að hækka skatta á fólk og fyrirtæki til að standa undir útgjöldum ríkissjóðs. Hin er að draga úr ríkisútgjöldum. Það þarf að hugleiða afar vel, herra forseti, hvernig við þessum aðstæðum verður brugðist. Sjálfum hugnast mér síður að við fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs verði brugðist með því að hækka skatta á almenning og fyrirtæki. Ég fæ ekki séð að mögulegt sé að auka skattheimtu á fólk og fyrirtæki ofan á yfirvofandi tekjufall, atvinnuleysi, gjaldþrot, háa vexti og háa verðbólgu. Nóg er nú samt.

Með góðum rökum má halda því fram að kjaraskerðingin sem nú þegar hefur orðið vegna verðbólgu feli í sér ígildi skattahækkana. Skynsamlegra væri að draga verulega úr ríkisútgjöldum á flestum eða öllum sviðum. Eins og áður segir voru hvorki ríki né sveitarfélög saklaus af því að hafa verið þátttakendur í góðærinu. Þó verður að halda því til haga að ríkið greiddi upp skuldir sínar á meðan vel gekk og það er mjög lofsvert og mestan heiður af því á núverandi hæstv. forsætisráðherra. Engu að síður hefur opinberum starfsmönnum fjölgað, stjórnsýslan þanist út, laun hækkað og ráðist hefur verið í kostnaðarsöm gæluverkefni. Á þessu berum við öll ábyrgð, líka hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem kvartaði yfir því áðan að menn skorti sjálfsgagnrýni. Ofan af þessu þarf að vinda, herra forseti. Draga þarf saman í ríkisbúskapnum á flestum eða öllum sviðum og forgangsraða útgjöldum með skynsamlegum hætti í þágu grunnþjónustu sem veita þarf almenningi og grunnstoðanna sem byggja skal þjóðfélagið á. Lúxusinn þarf hins vegar að setja á ís.

Niðurskurður útgjalda ríkisins á að bera það með sér að ríkið ætli að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna með afdráttarlausum hætti að það ætli að skera niður eigin útgjöld svo fólkið og fyrirtækin í landinu sjái svart á hvítu að því sé ekki ætlað að bera allar byrðarnar. Þar á ekkert að vera undanskilið og skilaboðin verða að vera skýr. Fækka á ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Starfslið hins opinbera má ekki vera fjölmennara en nauðsyn er á. Alþingismenn sem hafa ráðið sér aðstoðarmenn verða að sætta sig við að sjá á bak þeim. Auka þarf sveigjanleika á opinberum vinnumarkaði og veita yfirmönnum fyrirtækja ríkis og stofnana aukið aðhald. Launakjör og önnur réttindi opinberra starfsmanna hvort sem er í stjórnsýslunni, hjá fyrirtækjum ríkisins eða stofnunum þurfa að taka mið af efnahagsástandinu. Risnukostnað ríkis og sveitarfélaga og öll hugsanleg fríðindi starfsmanna þeirra þarf að skera við nögl. Með öðrum orðum þarf að skera af alla þá fitu sem fyrirfinnst í ríkisrekstrinum

Þar fyrir utan er nauðsynlegt að endurskoða umfang verkefna og umsvif ýmissa ráðuneyta. Utanríkisþjónustuna þarf að endurskipuleggja. Ríki sem þarf á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að halda er nú varla aflögufært til að veita þróunaraðstoð og um það má deila hvort við getum ráðist í öll þau samgönguverkefni sem menn vilja. Ég er ekki viss um að við getum borað jarðgöng um allt land og fæ ekki betur séð en við þurfum að fresta byggingu hátæknisjúkrahúss og fleira mætti telja. Við þurfum einfaldlega að skera niður á öllum sviðum.

Niðurskurður eins og sá sem ég hef nefnt verður ekki sársaukalaus, hann verður mjög erfiður. En menn verða að horfast í augu við það að hjá honum verður ekki komist. Hið opinbera verður að sníða sér stakk eftir vexti við þær aðstæður sem nú eru uppi. Við höfum því miður ekki efni á öðru.

Samhliða niðurskurðaraðgerðunum er mikilvægt að stjórnvöld hugi vel að þeim atvinnurekstri sem stendur eftir hrun fjármálakerfisins. Hinar kraftmiklu útflutningsgreinar þjóðarinnar, sjávarútvegur og stóriðja, munu ásamt ferðaþjónustu gegna lykilhlutverki við að afla þjóðarbúinu tekna í framtíðinni og þær þarf að vernda. Jafnframt þarf að auka framleiðslu innan lands til að afla aukinna tekna og leita allra leiða til að efla erlenda fjárfestingu í landinu, m.a. með því að nýta þær auðlindir landsins sem í dag standa ónýttar svo að þær skili þjóðarbúinu tekjum. Það þarf að virkja þann sköpunarkraft og þekkingu sem býr í fólkinu í landinu og efla nýsköpun til atvinnusóknar á öllum sviðum. Nú er mikilvægt, herra forseti, að vel sé haldið á spöðunum og ígrundað vel og vandlega með hvaða hætti stjórnvöld ættu að grípa til aðgerða til að leysa úr viðfangsefnunum sem við blasa. Meginverkefnið hlýtur að vera að styðja við bakið á fyrirtækjum sem hér starfa, standa vörð um hag almennings, efla verðmætasköpun í landinu, verja störf og koma í veg fyrir að ungt og vel menntað fólk finni kröftum sínum farveg í öðrum löndum. Leiðin til að ná þessum markmiðum er að mínu mati ekki sú að leggja auknar byrðar á fólk og fyrirtæki í landinu. Við eigum að skera niður útgjöld ríkisins, skera burt alla fitu sem þar fyrirfinnst og ekki síst hjá okkur sjálfum, stjórnvöldum, alþingismönnum og öllum sem að ríkisrekstrinum koma.