136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott fyrir ríkisstjórnina að eiga hauk í horni þar sem er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Gagnrýni okkar á ríkisstjórnina hefur auðvitað fyrst og fremst verið sú að hún skyldi koma málum þannig að við lok októbermánaðar væru engir aðrir kostir eftir í stöðunni enda hafði ekkert verið unnið í öðru. Það er auðvitað það sem er langámælisverðast í þessu öllu.

Við höfum vissulega gagnrýnt Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og bent á hvernig það hefur reynst löndum að lenda þar á klafann. Það sem maður óttast auðvitað er að skilmálar hans og íhlutun hér þýði að byrðarnar lendi fyrst og fremst á almenningi og innlendu atvinnulífi, það verði passað upp á fjármagnið en fólkið látið mæta afgangi. Og er það ekki forsmekkurinn af því sem við erum að sjá framan í? Þessi svakalega vaxtahækkun er allt of dýru verði keypt. Það eru aðrar og nærtækari aðferðir til þess að reyna að hafa tök á gjaldeyrismarkaðnum enda veit ég ekki betur en til standi hvort sem er að hafa á næstunni takmarkanir á (Forseti hringir.) fjármagnsflutningum til og frá landinu. Og af hverju er því tæki þá ekki beitt fremur en að (Forseti hringir.) keyra vextina svona ofboðslega upp?