136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:36]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil enn víkja að þeirri umræðu sem hér hefur verið um það hverjir hafi tekið hina umdeildu ákvörðun um stýrivaxtahækkun upp í 18% og ég vil að hæstv. forsætisráðherra svari því skýrt hvort ráðherrum Samfylkingarinnar og þingmönnum Samfylkingarinnar hafi átt að vera kunnugt um að sú ákvörðun var pólitísk ákvörðun sem tekin var með vitund og vilja þeirra sem að stjórnarsamstarfinu standa. Um þetta var deilt í þingsalnum í gær, um þetta var deilt í þingsalnum í fyrradag og ekki er hægt að merkja það með öðrum hætti af svörum forsætisráðherra sem hér hafa komið fram en að fjöldi þingmanna Samfylkingarinnar, frá hæstv. iðnaðarráðherra Össuri Skarphéðinssyni til formanns þingflokks sama flokks og hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, hafi staðið í þessu púlti og farið vísvitandi (Forseti hringir.) með ósannindi um þetta mál. Það er alvarlegur hlutur.