136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:37]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessar ásakanir um að þingmenn eða ráðherrar séu að fara með vísvitandi ósannindi eru auðvitað mjög hvimleiðar þó að þær séu jafnframt mjög alvarlegar ásakanir. (Gripið fram í.) Það er Seðlabankinn sem tekur hina formlegu ákvörðun, þannig er okkar stjórnkerfi. En þetta er byggt á vinnu sem fyrir liggur í samstarfi okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og við munum á morgun ganga frá þessu bréfi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem síðan verður birt hér. Ég skil það svo að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé raunverulega að finna að því að þessi umræða skuli vera áður en skjalið er birt. Kannski hefði átt að hafa þessa umræðu á mánudaginn eða þriðjudaginn þegar búið verður að birta þetta skjal. (ÖJ: Nei, við viljum taka þátt í mótun þess og …) Það er búið að kynna þetta bæði í utanríkismálanefnd og fyrir formönnum stjórnarandstöðuflokkanna en ríkisstjórnin tekur auðvitað alla ábyrgð á þessari samningsgerð, hún gerir það. (ÖJ: Hún er umboðslaus.) Nei, við erum ekki umboðslaus. (ÖJ: Þið eruð umboðslaus.) Hefur þú meira umboð, hv. þingmaður? (ÖJ: Nei, en þið hafið glatað trausti þjóðarinnar.)