136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:39]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan síðustu mínúturnar hefur kannski farið í annan farveg en við mátti búast þegar verið er að ræða jafnstórt mál og raun ber vitni, þ.e. þá stöðu sem nú er uppi í íslensku samfélagi. (Gripið fram í: Traust til ríkisstjórnarinnar.) Ég held að óhjákvæmilegt sé að koma aðeins að þeirri umræðu sem hér fór fram og upplýsa um þann skilning sem a.m.k. sá sem hér stendur hefur á þessu máli.

Það er alveg augljóst að sú yfirlýsing eða ákvörðun eða sú áætlun öllu heldur sem nú á að senda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er unnin af íslenskum stjórnvöldum, þ.e. ríkisstjórninni og Seðlabanka. (Gripið fram í: Þingmönnum Samfylkingarinnar.) Fyrst og fremst ríkisstjórninni og Seðlabanka og er unnin af þeim. Þetta er (Gripið fram í.) einhliða plagg sem Íslendingar senda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sem verður sent á morgun að sögn hæstv. forsætisráðherra og tekið fyrir í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þriðjudaginn. Þá liggur fyrir hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkir þessa áætlun eða ekki. Þannig er þetta. (ÖJ: Þarf ekki fyrst að spyrja þingið, Alþingi Íslendinga, áður en þið sendið erindi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington?) Að sjálfsögðu hlýtur þessi umræða að koma inn í þingið og þingið þarf að fjalla um … (ÖJ: Áður en þið sendið bænaskjalið?) Þingið þarf að fjalla um (Gripið fram í.) þennan samning.

Virðulegi forseti. Er ekki rétt að einn tali í einu? Ég veit að hv. þingmanni er mikið niðri fyrir og hann talar oft og ég efast ekki um að hann hefur beðið um orðið aftur. En það er a.m.k. mikilvægt að þeir sem hér tjá sig fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna þess að hér voru settar fram mjög harðar ásakanir í umræðunni áðan. Það var fullyrt að þingmenn færu með rangt mál (Gripið fram í: Já.) sem er algerlega fráleitt. Það var stuðst við yfirlýsingu Seðlabankans frá í morgun þar sem talað var um samningsgerð. Hér liggur fyrir einhliða áætlun íslenskra stjórnvalda sem er á leiðinni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þá kann að vera kominn á samningur. Og það er í raun og veru alveg makalaust að Seðlabankinn skuli taka að sér að vera blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar á þann hátt sem hann gerir, það er alveg með ólíkindum, og kalla þessa áætlun samningsgerð þegar enginn samningur liggur fyrir. Það er mjög athyglisvert. (Gripið fram í.) Já, alveg rétt, reyndar hef ég (Gripið fram í.) ekki séð þennan samning. (Forseti hringir.) Þetta er allt í lagi, virðulegi forseti. Reyndar hef ég ekki séð þessa áætlun sem Seðlabankinn kallaði samningsgerð eða samningsdrög, ég hef ekki séð hana og get þar af leiðandi ekki staðfest það sem Seðlabankinn segir. Hins vegar er mjög athyglisvert að Seðlabankinn skuli tjá sig á þennan hátt áður en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fengið tækifæri til að fjalla um þá áætlun sem verið er að senda honum. Þetta finnst mér vera mjög athyglisvert innlegg í þá umræðu sem hér fer fram.

Ég held að það sé líka rétt, virðulegi forseti, vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki ástæða þess að við erum í þeirri stöðu sem hér er nú um stundir. Við erum að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og höfum óskað eftir láni. Það hefur líka komið fram að aðrar þjóðir sem kunna að vera tilbúnar að aðstoða okkur í þeirri stöðu sem nú er uppi hafa sett það sem skilyrði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði með í för enda er það ofur eðlilegt. Það er eðlilegt að hingað komi fulltrúar þessarar stofnunar og taki út íslenskt efnahagslíf og rannsaki það í stað þess að hver einasta þjóð sem hugsanlega mundi vilja leggja okkur lið komi hingað og taki upp sjálfstæða rannsókn á stöðu efnahagsmála hér. Það er ofur eðlilegt og skiljanlegt á allan hátt. Þetta er forsenda fyrir þeirri aðstoð. Við getum síðan rætt það sérstaklega (Gripið fram í.) hvernig á því stendur að þessi staða er komin upp og kannski ekki síst við hv. formann Framsóknarflokksins sem hér hefur sig talsvert í frammi í salnum og kallar fram í. Það er líka athyglisvert að þeir sem rituðu skýrslu nýverið sem Landsbankinn óskaði eftir, tjáðu sig einmitt í dag um þá stöðu og nefna þar að árið 2000, 2004 eða 2006 hafi löngu verið orðið ljóst að það módel sem var að verða til í bankageiranum gæti ekki gengið eftir. Þá var á vaktinni alla vega hv. formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, þannig að þetta er mjög athyglisverð umræða sem hér fer fram.

Að þessum orðum sögðum, virðulegi forseti, er mikilvægt að við lútum að því verkefni sem fram undan er, snúum okkur að því uppbyggingarstarfi sem fram undan er sem er vitaskuld það verkefni sem við höfum. Verkefni númer eitt, tvö og þrjú er að tryggja hag fyrirtækjanna og hag heimilanna í þeirri stöðu sem nú er uppi. Við þörfum að fara í samstillt átak um að efla vinnumarkaðinn og atvinnulífið á nýjan leik, annars komumst við ekki út úr þessu. Það er algert lykilatriði í þeirri stöðu sem við erum í að fara sameiginlega í það verkefni að vinna okkur út úr þeirri stöðu sem nú er uppi. (ÖJ: En eigum við ekki að gera það?) Í þeim efnum eru ýmsar leiðir færar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem kallar hér fram í. En af því að kallað var fram í er kannski rétt að nefna það að ég hef hlustað mjög grannt eftir tillögum stjórnarandstöðunnar til uppbyggingar í þessari umræðu og ég held að ég geti sagt það eins og ég stend hér að það eru tvær tillögur sem ég hef tekið eftir. Önnur er sú að fram fari ítarleg rannsókn á þeirri stöðu sem nú er uppi og ég er sammála því, ég er algerlega sammála því. Ég tel að hér eigi að fara fram rannsókn og ég tel eðlilegast að utanþingsnefnd verði sett á laggirnar á grundvelli löggjafar sem sett verður í þinginu í anda ýmissa rannsóknarnefnda sem komið hefur verið á fót. Ég held að það sé eðlilegast og að í þeirri nefnd eigi sæti bæði innlendir og erlendir sérfræðingar. Þetta er önnur tillagan sem stjórnarandstaðan hefur sett fram. Hin tillagan er sú að það fari fram kosningar. (Gripið fram í.) Hin tillagan er sú að fram fari kosningar og ég er sammála því að þær munu fara fram en hvenær þær fara fram get ég ekki sagt til um. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Þetta er í raun og veru helsta innleggið sem hér hefur verið lagt fram auk þess sem hér hefur verið kallað fram í að taka upp norsku krónuna. (Gripið fram í.) Þetta eru þær tillögur sem hér hafa verið (Gripið fram í.) lagðar fram. Ég er nokkuð viss um að við hljótum að skoða það mjög vandlega að auka þorskaflann. (Gripið fram í.) En þetta eru þau lykilatriði sem hér hafa verið sett fram.

Við þurfum að gera miklu meira en einvörðungu þetta. Við þurfum að sigla í gegnum þá alvarlegu bankakrísu sem hér er uppi hvað sem okkur kann að finnast um þá stöðu sem nú er uppi varðandi það að vera með evru, krónu o.s.frv. Það er alveg ljóst að í næstu viku þegar ætlunin er að koma á ný upp virkum gjaldeyrismarkaði, sem er forsenda þess að við getum snúið við þeirri þróun sem hér hefur verið, þá þurfum við að styðjast við krónuna. Við höfum tvo valkosti í þeim efnum. Annaðhvort að festa gengið eða setja krónuna á flot. Ef við festum gengið þurfum við alveg óheyrilegt magn gjaldeyris til að styðja við það og ég leyfi mér að fullyrða að við höfum ekki aðgang að þeim gjaldeyri. Hinn valkosturinn er að setja krónuna á flot og þá verðum við að grípa til aðgerða, (Gripið fram í: Jarða seðlana.) mikilla aðgerða. Hér hefur verið kynnt sú vaxtahækkun sem er talin einn liður af mörgum við að reyna að byggja upp gjaldeyrismarkað. Hér hefur einnig komið fram að mikilvægt sé að grípa til gjaldeyrishafta, þ.e. hvað varðar frjálsa fjármagnsflutninga úr landinu. Það hefur einnig komið fram hér í umræðunni að til þess verði að grípa. Hér er um að ræða atriði sem skipta sköpum við að snúa þessari þróun við og til þeirra verður gripið. Það er enginn að hækka vexti vegna þess að menn hafi gaman af því. Það gera sér allir grein fyrir því (Gripið fram í.) hversu alvarlegt það er en það væri gaman að heyra, af því að hv. þm. Guðni Ágústsson hefur tekið að sér það hlutverk að vera yfirgjammari í dag, hvaða hugmyndir hann hefði og hvernig ætti að reyna að koma gjaldeyrismarkaðnum af stað í næstu viku. Það væri mjög fróðlegt því að þá dugar kannski ekki, þegar verið er að kalla eftir sjónarmiðum og rökum, það eitt að gjamma fram í.