136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:50]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það fer eins og fyrrum þegar hingað koma stjórnarliðar og ræða þetta alvarlega ástand að þjóðin og þingheimur sem hlustar hlýtur að verða stöðugt ráðvilltari vegna þess að ekki er neitt samræmi í málflutningi hv. stjórnarþingmanns Lúðvíks Bergvinssonar og þess sem kom fram hjá forsætisráðherra fyrir augnabliki síðan. (Gripið fram í.) Nú heitir það sem hæstv. forsætisráðherra lýsti áðan með nokkuð greinargóðum hætti sem þríhliða samkomulagi milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabanka og ríkisstjórnar; nú heitir það einhliða áætlun.

En ég spyr hv. þingmann — hann má hafa aðra sýn á þetta heldur en forsætisráðherra, það heyrir sjálfsagt undir hans frelsi — en komu ráðherrar Samfylkingarinnar að því sem forsætisráðherra kallar þríhliða samkomulag en hann kallar einhliða áætlun? Hann kallaði það reyndar (Forseti hringir.) sjálfur samningsdrög í ræðu í gær þannig að það er ekki einu sinni samræmi milli þess sem hann segir í dag og (Forseti hringir.) þess sem hann sagði í gær.