136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:57]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. þm. Lúðvík Bergvinsson með þeim hætti að það sé til áætlun. Ég veit ekki hvað hann vill kalla það, hvort það er samningur eða samningsdrög sem hann talaði um í ræðu sinni áðan, en það liggi fyrir áætlun stjórnvalda sem lögð verði fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Eftir því sem ég gat best greint miðað við það sem hv. þingmaður sagði áðan hefur þetta mál ekki verið borið undir þingflokk Samfylkingarinnar. Það var út af fyrir sig gott að fá úr því skorið hvort þessi áætlun hefði verið lögð fyrir þingflokk Samfylkingarinnar eða þingmenn stjórnarinnar almennt vitað um þessa svokölluðu áætlun. Stjórnarandstöðunni hefur alla vega ekki verið kynnt eitt eða neitt. Það er dálítið merkilegt að henni skuli haldið gjörsamlega úti í kuldanum eftir að hafa ítrekað lýst sig tilbúna til þess að eiga allt samstarf við ríkisstjórn. Ég (Forseti hringir.) tala nú ekki um ef þingflokkar stjórnarinnar eru eins settir. Hverjir eru þá að bauka með þetta (Forseti hringir.) á hnjánum á sér?