136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:58]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara hv. þingmanni. Að sjálfsögðu hefur verið haft samráð við þingflokka ríkisstjórnarinnar. Hins vegar liggur það einnig fyrir og mér er alveg óhætt að upplýsa það að þingflokknum var ekki í smáatriðum kynnt sú áætlun sem hér liggur fyrir enda hefur verið greint frá því. (Gripið fram í.) Hún hefur verið kynnt í meginatriðum, já, og ríkisstjórnin fengið umboð þingflokkanna til þess að vinna áfram með þetta. Hins vegar hefur hún ekki verið kynnt í grundvallaratriðum vegna þess (Gripið fram í.) að eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt liggur fyrir ósk frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að þetta verði ekki kynnt í smáatriðum fyrr en hann hefur fjallað um málið.