136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:05]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með þingmanninum að segja má að allar aðgerðir í þeirri erfiðu stöðu sem við erum nú í séu vondar. Það er ekki gott að þurfa að hækka vexti en markmiðið með vaxtahækkuninni er að slá á verðbólgu og tryggja að gjaldeyrismarkaður komist á á nýjan leik. Þetta er sem sagt liður í þeirri aðgerð.

Það hefur líka komið hér fram af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar að báðir vænta þess að hér sé um skammtímaaðgerð að ræða og að vextir geti gengið hratt niður. Það verður til þess að efla og styrkja atvinnulíf, það verður til þess að efla og styrkja heimilin í landinu þannig að markmiðið er alveg klárt.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að sumir telja að aðrar leiðir séu betri og það kann að koma í ljós. En í þessari stöðu hafa Seðlabankinn og ríkisstjórnin ákveðið að fara (Forseti hringir.) þessa leið þannig að það liggur fyrir hér með þessi skýru markmið að leiðarljósi.