136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:07]
Horfa

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú kallar hv. þingmaður þetta skýr markmið. Ég held að þetta séu mjög óskýr markmið sem muni hafa margþættar afleiðingar í för með sér og þess vegna stefna heimilin að hluta til í mjög mikla erfiðleika og gjaldþrot og atvinnuleysi. Hagfræðingar benda á að verðtryggðu lánin muni nú standa upp úr þökunum, að fyrirtækin muni vegna þessarar aðgerðar flýja land eða verða gjaldþrota.

Hv. þingmaður hefur spurt eftir því hvað menn sjái. Ég hef bent á það, og við framsóknarmenn, að nú þurfi menn að hugsa um atvinnulífið og heimilin. Íbúðalánasjóðinn vörðum við og hann ber að verja, hann er mikilvægt tæki til þess að bjarga heimilunum. Við viljum láta veiða og ákvarða strax meiri veiði úr hafinu. Við teljum að hér þurfi erlenda fjárfestingu og það eigi ekki að tefja fyrir stórum virkjunum, hvort sem það er Bakki eða Helguvík. Við þurfum síðan að fást við skuldir fólks og fyrirtækja. Sumt þarf að núllsetja. Menn þurfa að leggja til hliðar (Forseti hringir.) gjaldþrotin. Ef það er satt að 70% fyrirtækjanna séu svo skuldug að þau séu gjaldþrota er það mjög alvarlegur hlutur. Þess vegna verður ríkisbankakerfið nýja (Forseti hringir.) að takast á við þennan vanda með ríkisstjórn og stjórnvöldum.