136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:33]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (frh.):

Herra forseti. Ég skal fyrir orð forseta hefja ræðu mína en lýsi enn og aftur yfir vanþóknun minni á því að ráðherrar séu fjarstaddir umræðuna og tel það virðingarleysi við þingskipulagið sem við búum við. Mjög mikilsvert er að við þessar aðstæður, þar sem verið er að gera stóran alþjóðlegan samning sem mun binda komandi kynslóðir — það er engin leið að slíkir samningar séu gerðir án aðkomu þingsins og án þess að lýðræðislegur vettvangur þess sé virtur. Þingheimur heyrði hér áðan orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar þegar spurt var um aðkomu þingsins að hann ætlaði að treysta á að framkvæmdarvaldið færi rétt að. Þetta tel ég ekki vera rismikið sjónarmið hjá einum af talsmönnum þingsins, einum af þingflokksformönnunum, að líta á málið með þessum hætti, ég tel raunar að þingið þurfi að ganga eftir því með sínum skelegga hætti að aðkoma þess sé ekki vanvirt, eins og er raunar með því hvað umræðan — ekki bara undir minni ræðu heldur umræðan öll — í morgun hefur verið fáliðuð af hendi stjórnarliða og síðasta hálftímann sem umræðan var fyrir mat var enginn fulltrúi stærsta stjórnmálaflokksins, Sjálfstæðisflokksins, í salnum og ef mér yfirsést ekki þá held ég að staðan sé sú sama enn þá. (Gripið fram í.) Frjálslyndi flokkurinn má vel eiga það að hann hefur hér fullt hús. (Gripið fram í.) Ég ætla að víkja að þessari umræðu þrátt fyrir frammíköll þeirra manna sem aðeins vilja tala um Evrópu og ætla að mestu að sneiða hjá þeim þætti.

Kallað hefur verið eftir því að fjallað sé um framtíðarsýn. Ég tel það mjög mikilvægt að við fjöllum við þessar aðstæður um framtíðarsýn íslensku þjóðarinnar en ætla ekki að hætta mér út í umræðu um hvort rétt hafi verið á þessu augnabliki að leita Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég er aftur á móti jafnsannfærður um, eins og ég hef hreyft í umræðu áður, að afar óheppilegt hafi verið í því ferli að annar stjórnarflokkurinn og mörg af fjölmennustu samtökum aðila vinnumarkaðarins höfðu afskipti af viðkvæmri samningagerð sem þá var í undirbúningi, samningagerðinni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, með því að kalla í sífellu eftir sjóðnum. Það styrkti ekki samningsstöðu hæstv. fjármálaráðherra og hans manna að hafa þau köll yfir sér og það gagnrýni ég og tel hafa verið afskaplega óþjóðholla hegðun.

Talað hefur verið um að það sem gerst hafi í samfélaginu hafi verið skipbrot kapítalismans. Því er ég ekki sammála. Þetta er skipbrot ákveðinnar tegundar kapítalisma. Kapítalisminn er stórt og flókið kerfi viðskipta og þar eru margir skólar til, margar kenningar uppi. Ég held að stórfyrirtæki og alþjóðakapítalisminn hafi beðið hér ákveðið skipbrot. Sjálfur vil ég enn trúa (Gripið fram í.) á það að frjáls markaður og einkaframtak sé affarasælast á flestum sviðum atvinnulífsins.

Það sem við höfum byggt upp, ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar, er mjög undarleg útgáfa af kapítalisma, það er kapítalismi markaðskratismans, kapítalismi eftirlitsfrjálshyggjunnar, sem í raun og veru hefur verið byggð upp af stórfyrirtækjaveldinu í heiminum og hentar því eingöngu, vegna þess að innan kerfisins geta lítil fyrirtæki ekki starfað. Þau ráða ekki við að starfa í þeim frumskógi reglugerða og ofurmarkaðshyggju sem hefur verið innleidd, ekki bara af hinu sæla Evrópusambandi heldur miklu víðar í heiminum bæði vestan hafs og austan.

Ég hygg að tímar þessa skrifræðis og tegundar af alþjóðahyggju komi nú til nokkurs endurmats og aftur verði horft til margra þeirra klassísku gilda í kapítalismanum og frjálslyndi sem hafa ríkt á Íslandi og verið ráðandi í íslenskri framtíðarsýn í hálfa aðra öld. Við getum þar vísað til hugsunar og skrifa Jóns Sigurðssonar sem var bæði fullveldissinni og mikill frjálslyndismaður í viðskiptum og talsmaður utanríkisviðskipta, því að þau eru okkur mikilvægust. Við megum aldrei trúa því að við getum lifað hér án þess að hafa opið land fyrir viðskiptum sem víðast, en það þýðir ekki að við þurfum að binda okkur á klafa nokkurra stórvelda.

Ég held að tími sé kominn til að stjórnmálamenn í landinu taki umræðuna út frá aðeins breiðari sjóndeildarhring en þeim að lesa einungis staglið í greiningardeildum bankanna eða hlusta á vaðal í hagfræðingum sem nú vissu allir að þetta var mislukkað. Þeir sögðu okkur það ekki á meðan ósköpin grófu um sig, þeir gerðu það hreinlega ekki. Marga þeirra þekkjum við ekki úr fjölmiðlum undanfarinna ára þó að þeir séu virtir fræðimenn á sínu sviði. Fræði þeirra sögðu þetta ekki og margt í hagfræði undanfarinna áratuga verður tekið til mikils endurmats á heimsmælikvarða og er afskaplega úrelt nú þegar. Ég held að við getum leitað í klassíska smiðju hugsunar, þar sem við eigum menn á borð við Jón Sigurðsson, sem ég nefndi áðan, Jónas Hallgrímsson, innblástur frá Jónasi frá Hriflu og leiðtoga á borð við Ólaf Björnsson hagfræðing og alþingismann Sjálfstæðisflokksins, sem hér sat fyrir nokkrum áratugum, og frammámenn í náttúruvernd eins og Eystein Jónsson. Til þessara manna eigum við að leita og kannski er kominn tími til að alþingismenn geri eitthvað annað (Gripið fram í.) en að sitja undir fundahöldum embættismanna og lesa skýrslur. Ég held að menn mættu leita aðeins dýpra að framtíðarsýninni því að ég held að við eigum ... (Gripið fram í.)

Utan úr sal er spurt hvort ekki megi leita til neinna núlifandi og er nokkur óþolinmæði í máli þingmanns, en ég hafði þá virðingarröð á að ég ákvað að telja hina fyrri upp fyrst og hina síðari upp síðar og bið ég hv. þingmann um að hlusta vel. Ég held að þetta endurmat hugsunar sé þegar komið langt af stað meðal núlifandi samferðarmanna okkar sem þingmenn hlusta kannski ekki allt of mikið á. Ég hef bent mörgum á að lesa skrif Páls Skúlasonar heimspekings og Einars Más Jónssonar og ég bendi hv. þingheimi líka á, hvað sem líður tónlistarsmekk, að hlusta eftir boðskap Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu. Kannski eru komnir þeir tímar sem meistari Megas spáði, en hann er einnig talinn meðal núlifandi — þó að oft hafi gengið þjóðsögur um annað — og á að hafa byrjað eina af tónleikum sínum með þeim fleygu orðum: Framsóknarmenn allra landa, sameinist.

Ég held að nú séu þeir tímar að renna upp að við gerum okkur grein fyrir því að aðrar hugsjónir eru til en blindir hagsmunir stórfyrirtækja og önnur gildi en hinn blindi mammon. Margt í markaðshyggju samtímans hefur drepið niður margt það besta í samfélagi okkar. Ég vil nefna lítið dæmi varðandi þá trú á reglugerðarmarkaðskratisma, sem nú ríður húsum og við höfum innleitt hér í gegnum Evrópu — en aðrar þjóðir hafa líka innleitt, svo að við höldum því öllu til haga — að fyrir nokkrum árum var bændum bannað að tala saman af því að þeir ættu að keppa sín á milli á frjálsum markaði og klóra augun hver úr öðrum. Niðurstaðan varð sú að við settum fjölda bændabýla í kartöflurækt og garðyrkju á höfuðið og verð lækkaði ekki neitt. Sömu stofnunum og keyrðu bændur í þrot var ætlað að hafa eftirlit með því að olíufélög kepptu sín í milli og varð ekkert ágengt. Fyrir nokkrum árum fóru þær þó af stað og hófu mikla krossferð gegn olíufélögunum og hefur það verið mikil mál í samfélaginu síðan.

Hvað hefur gerst varðandi samkeppnina? Hún er jafnlítil milli stórfyrirtækja og áður vegna þess að í kerfinu eru alvarlegar hugsanaveilur og ég er ekkert viss um að við getum nokkuð komist nær um það hvar þær liggja með því að lesa rit hagfræðinga. Ég held að tími sé kominn til að þeir sem hér fara með völd lesi skáldin og ekki er verra að það séu núlifandi skáld og því yngri því betra, því margt þess sem nú er skrifað um krúttkynslóðina er einmitt það sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir í áratugi. Krúttkynslóðin er eins og sótt beint aftur í skræður Jónasar frá Hriflu og er þó það nýjasta og flottasta sem við eigum í samtímanum, þannig að þeir sem héldu að þeir væru nýmóðins með því að ganga hér um eins og Bör Börson (Forseti hringir.) eru nú úreltir.