136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða þar sem annars vegar var boðað frelsi í viðskiptum en hins vegar talað gegn samkeppniseftirliti og fer kannski fleirum eins og mér að skilja ekki alveg hvort hv. þingmaður var að koma eða fara í ræðunni.

Ég kom hingað upp fyrst og fremst til að gera athugasemd við ummæli hv. þingmanns um ummæli þingflokksformanns Samfylkingarinnar hér áðan. Hv. þingmaður taldi undarlegt hvernig með áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum hafi verið farið í þingflokkum stjórnarflokkanna og þá sérstaklega í þingflokki Samfylkingarinnar. Auðvitað er það svo að ríkisstjórnin markar við þær aðstæður sem nú eru stefnu um viðbrögð og kynnir hana í þingflokkum. Í þingflokki Samfylkingarinnar voru grundvallaratriði áætlunarinnar kynnt (Gripið fram í.) og hvaða stefnu væri verið að marka. Skriflega útgáfan var ekki lögð fyrir þingflokkinn, en ráðherrar okkar kynntu alla grundvallarefnisþætti málsins og á þeim grundvelli fengu þeir umboð til að ljúka málinu. Þetta er hefðbundin framganga í slíkum málum.

Mér finnst athyglisvert ef framsóknarmönnum er allt í einu orðið það annt um þingræðið að þeir telji þetta aðfinnsluverða framgöngu. Ég man ekki betur en að hafa lesið um að við stórslysi hafi legið þegar hæstv. þáverandi ráðherra Guðni Ágústsson heyrði í útvarpinu að tveir menn í forustu ríkisstjórnar Íslands hefðu ákveðið að ráðast inn í Írak. Ekki var framsóknarmönnum þá svo annt um þingræðið að þeir teldu ástæðu til að leggja á miklar ræður í þingflokki Framsóknarflokksins um grundvallaratriði. (Gripið fram í.)