136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:46]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nokkuð svara vant því að ég veit ekki hvaða spurningum var beint til mín í ræðu hv. þingmanns annarri en þeirri að það skyti skökku við að tala fyrir frjálsri samkeppni og á móti samkeppniseftirliti. Ég tala ekki á móti samkeppniseftirliti sem slíku, ég tala á móti þeim reglugerðaskógi sem við höfum búið til og er algjörlega haldlaus. En ég vil benda hv. þingmanni á að við höfðum frjálsari samkeppni og betri samkeppni um margt í íslensku hagkerfi og í erlendum hagkerfum líka áður en fundin voru upp samkeppniseftirlit. Væri hollt fyrir þingmanninn, af því að honum er aðallega annt um að ræða hér mannkynssögu, að hann kynnti sér þann kafla. Um aðra kafla mannkynssögunnar sem hann ræddi, eins og þátttöku Íslands í Íraksstríðinu, hef ég margoft rætt bæði í þessum ræðustóli og annars staðar. Fyrir það hafa formenn Framsóknarflokksins, bæði hv. formaður Jón Sigurðsson og hv. núverandi formaður, Guðni Ágústsson, svarað og beðist afsökunar á því frumhlaupi sem þar var framið og það var ekki gert með vilja okkar meginþorra Framsóknarflokksins. Um það þarf því ekki meira að tala og má þingmanni vera það frjálst þegar hann verður algjörlega rökþrota í umræðu dagsins að tala þá um að Halldór Ásgrímsson hafi stutt Íraksstríðið. Það er mjög rismikil umræða á þessum tímapunkti. Það voru vissulega, að mínu viti, ein hörmulegustu mistök í lýðveldissögunni fyrir utan þau mistök sem framin hafa verið í efnahagsmálum á undanförnum mánuðum, en þau koma þessu máli ekki við og hér hefur verið kallað eftir því að umræðan sé um framtíðarsýn. Ég kom með umræðu um framtíðarsýn og þá fór, eins og ég mátti svo sem vita, að hv. þm. Árni Páll Árnason skildi ekkert um hvað verið var að tala. Það segir meira um hv. þingmann en þá ræðu sem flutt var.