136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:48]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt sérstök og kynleg ræða sem hv. þm. Bjarni Harðarson hélt hér áðan og á stundum það samhengislaus að ég náði ekki alveg innihaldinu. Ég staldra við einn þátt í ræðunni og mig langar að óska eftir upplýsingum frá hv. þingmanni um hvað hann átti við þegar hann talaði um óþjóðholla hegðun þeirra sem hefðu óskað eftir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eins og ég skrifaði niður eftir hv. þingmanni. Á hann við að allir þeir virtu hagfræðingar sem bentu strax í vikunni eftir fall bankanna á að það væri nauðsynlegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi hér að, til að mynda Jónas Haralz, Jóhannes Nordal og fleiri mætir hagfræðingar, séu óþjóðhollir menn sem sýni af sér óþjóðholla hegðun? Þetta vakti athygli mína og mér þætti vænt um að fá svar frá þingmanninum um hvað hann átti við. Hvað vildi þingmaðurinn ef hann vildi ekki aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?