136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:49]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara málefnalegri spurningu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Það sem ég átti við í þessu sambandi var að við samningaborð sátu tveir aðilar, fulltrúar íslenska ríkisins og fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og ræddu um það hvort og þá með hvaða hætti koma ætti til samstarfs þessara aðila. Það segir sig algjörlega sjálft og þarf ekki yfirgripsmikla þekkingu í samningatækni til að gera sér grein fyrir því að það er mjög óþægilegt fyrir samningamenn íslenska ríkisins að á sama tíma og þeir sitja í viðkvæmum samningaviðræðum sé yfirboðari þeirra á Íslandi að kalla á eftir því að þeir geri eitthvað ákveðið. Þeir þurftu að hafa frelsi þar. Þetta kalla ég óþjóðlega hegðun vegna þess að þarna var Ísland að semja við alþjóðasamfélagið. Þarna voru hagsmunir íslensku þjóðarinnar öðrum megin við borðið án þess að um neitt fjandsamlega aðila væri að ræða. Því hef ég aldrei haldið fram, ég hef aldrei tekið undir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé einhver sérstakur andstæðingur okkar. Ég held aftur á móti að hann sé óskaplega úrelt stofnun í viðhorfum sínum. Ég bakka ekkert með það en það er ekki af sérstökum illvilja.

Varðandi aftur á móti þátt hagfræðinganna í þessu máli þá verður (Forseti hringir.) Samfylkingin að fara að átta sig á því að staða þeirra í þessu máli með allt öðrum hætti — samkvæmt klukkunni á ég 15 sekúndur eftir — staða þeirra er með allt öðrum hætti (Forseti hringir.) þar sem þeir eru ekki stjórnendur landsins og eru þess vegna ekki íhlutunaraðilar um samningaviðræðurnar þó að þeir segi sína sérfræðiskoðun. En þingmenn (Forseti hringir.) og aðrir ráðamenn verða að skilja að þeir bera ábyrgð (Forseti hringir.) sem ráðamenn.