136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:57]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg sjálfsagt að upplýsa hv. þm. Bjarna Harðarson sem og aðra í þingsalnum og þá sem hlusta á að ég var í Alþýðuflokknum þegar að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var gerður en það skiptir akkúrat engu í þessu máli. Hv. þm. Bjarni Harðarson og fleiri í Framsókn eru að reyna að þvo af sér helmingaskiptareglu Framsóknarflokksins. Það stendur enn og aftur upp á þá að svara fyrir það. Þeir lögðu grunninn að þeim ófarnaði sem þjóðin situr í í dag og bera ábyrgð á honum. Þeir losna ekkert undan því að ábyrgð þeirra er mikil. Þeir voru tólf ár í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og tóku þátt í að skipta bönkunum upp og ákveðinn hópur framsóknarmanna, svokallaður S-hópur, tók annan helminginn og Sjálfstæðisflokkurinn hinn. (Gripið fram í.)