136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins til að víkja að einu atriði sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni og það er gjaldmiðillinn. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að því fylgja auðvitað ókostir að halda úti minnsta gjaldmiðli í heimi, það er auðvitað alveg rétt og við eigum ekki að útiloka að í náinni framtíð verði tekin upp annar gjaldmiðill hver sem hann nú verður. En mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að það geti gerst, eins og staða krónunnar er núna og hríðfallandi gengi hennar.

Sumir segja að í dag eigum við að ganga í Evrópusambandið, taka upp evruna. Ætli Íslendingar þyrftu ekki að kaupa evru í dag á um það bil 200 kr. eða meira? Ef íslenska krónan yrði tengd við annan gjaldmiðil miðað við gengi hennar og stöðu í dag, hvað mundi það þýða? Værum við þá ekki að festa í sessi gríðarlega kjararýrnun fyrir fólkið í landinu? Það held ég. Ég fæ ekki séð að menn geti reiknað sig öðruvísi út úr því. Þar með er ég ekki að segja að við eigum ekki að taka upp annan gjaldmiðil, alls ekki, en ég velti fyrir mér hvaða útfærslur hv. þingmaður sér á þessu vandamáli og hvernig hann vill leysa það.