136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum efnahagsmál og aðildarumsókn að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hér hafa orðið mikil umbrot undanfarið, miklar hremmingar, og það er von að fólk vilji vita hvar sá jarðskjálfti átti upptök sín. Hann átti að hluta til upptök sín erlendis — þ.e. dómínó-áhrif — bankar fóru á hausinn annars staðar og það olli því að íslenskir bankar misstu greiðsluflæði, fóru þar af leiðandi í greiðsluvandræði og síðan í gjaldþrot. Erlendis var fyrst mikil ofgnótt af peningum og síðan kom í kjölfarið mikill skortur, áhættufælni og lausafjárskortur. Þetta er ein af ástæðunum fyrir þessum miklu hremmingum sem við höfum lent í en það er líka ástæða innan lands.

Skuldsetning bankanna var komin upp í 40 millj. á hvern íbúa á Íslandi, 160 millj. fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Það voru að sjálfsögðu ekki ríkisskuldir heldur skuldir einkabanka. Jöklabréfin ollu líka miklum vanda en það sem kannski olli mesta vandanum var krosseignarhald, áhættutaka banka, ríkissjóðs, fyrirtækja og einstaklinga. Áhættugleðin var höfð í öndvegi. Gamlar dyggðir eins og ráðdeild og sparsemi, öryggi og lítil áhætta voru sem sagt gleymdar.

Ég ætla ekki að skorast undan ábyrgð eins og hv. síðasti ræðumaður. Ég sem þátttakandi í að semja þessi lög sem hafa brugðist ber vissulega ábyrgð á þessari stöðu. Ég ber líka ábyrgð á því að hafa ekki minnt nægilega mikið á þessar gömlu dyggðir og ekki staðið nógu ákveðið gegn því sem ég sá að var afleiðing af gagnkvæmu eignarhaldi. Þannig að ég er ekki að skorast undan ábyrgð, alls ekki.

Hvað er búið að gera? Það er búið að gera ýmislegt. Við settum neyðarlög og í kjölfarið var greiðslukerfum bankanna bjargað, það má ekki gleyma því. Við vorum að bjarga greiðslukerfi bankanna þannig að fólk gæti notað debetkortin, borgað fyrir matinn sinn, olíuna og bensínið og allt það, haldið við þjóðfélaginu. Ég held að það sé neyðarréttur að gera þetta og öryggisatriði. Við erum búin að stofna nýja banka utan um innlendar kröfur og innlend innlán og vonandi er búið að bjarga öllum innstæðum í landinu með þeim hætti. Þetta verður keypt út úr þrotabúinu á núll krónur. Innlánin sem menn skulda, skuldir bankanna, og útlánin til einstaklinga, bílalán, íbúðalán, lán til fyrirtækja og sveitarfélaga o.fl., það eru eignir bankanna, þessar eignir og skuldir eiga að standast á og með mjög skynsamlegum hætti þannig að enginn getur mótmælt því að þetta hafi verið selt út úr bönkunum.

Við erum búin að sækja um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hann kemur með lánveitingu og svo hækkar hann stýrivexti. Það er hluti af öllum pakkanum og þeir sem báðu mest um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verða nú að taka þá pillu með. Ég er alls ekki sáttur við hana. Ég skil rökin á bak við það; þetta er gamaldags hagfræði sem gildir í venjulegu árferði en núna er ekkert venjulegt árferði. Þetta er mjög óvenjuleg staða og ég held að hefðbundnar aðferðir dugi ekki. Þessi stýrivaxtahækkun hefur engin áhrif á aukningu sparnaðar eða skulda hér á landi. Reyndar, herra forseti, vil ég geta þess í leiðinni að október mun sennilega líða fæstum úr minni í framtíðinni. Hann mun örugglega verða sá mánuður í Íslandssögunni þegar Íslendingar spöruðu mest vegna þess að tekjur komu inn á reikningana, fólk var ekki orðið atvinnulaust og útgjöld nánast þurrkuðust út. Það var mikill sparnaður sem fólst bæði í því að greiða upp skuldir og eins í því að leggja inn.

Það er sem sagt uppi áætlun um að setja í gang gengismarkað með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta verður allt upplýst á þriðjudaginn; það er ekki hægt að upplýsa það fyrr því að stjórnin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er ekki búin að samþykkja. Einnig er búið að setja af stað sérstakan saksóknara sem á að kanna hvort misjafnt hafi verið farið með hluti, hvort um sé að ræða eitthvert glæpsamlegt athæfi í aðdraganda þessa eða kannski áður.

Ýmislegt á eftir að gera og ég tel að nokkur atriði séu brýn, t.d. að endurgreiða vörugjald af bílum þannig að hægt sé að flytja út þennan bílaflota sem við höfum kannski ekki efni á að reka og eiga. Það þarf að hægja á öllum innheimtum og aðgerðum gegn skuldurum; setja í lög að til bráðabirgða hægist á þessu. Hugsanlega þarf að taka einhver ákvæði samkeppnislaga úr sambandi tímabundið en það þarf að vera mjög ákveðið tímabundið. Síðan þurfum við að læra af mistökunum, búa til hvíta bók sem ég held að mjög nauðsynlegt sé að alþingismenn, stjórnarandstaðan og stjórnarþingmenn, komi að en ekki framkvæmdarvaldið. Þá lærum við af því hvað gerðist. Hvað fór úrskeiðis? Voru það lögin eða framkvæmdin?

Við þurfum að skoða afkomu ríkissjóðs og þar kemur vandinn mikli. Hækkum við skatta? Ég tel að það sé í lagi að hækka krónutölu skatta sem hafa setið eftir undanfarin ár. Þar er fjöldi af sköttum sem má hækka, afleiðing af þeirri verðbólgu sem hefur verið. Svo megum við líka skoða að lækka hreinlega laun opinberra starfsmanna eins og er að gerast á almenna markaðnum. Tökum sem dæmi laun yfir 400 þús. kr., þar verði það sem umfram er skert um 10% og þau laun sem eru yfir 600 þúsund verði skert um 10% af því sem umfram er, til viðbótar. Það verði tillaga til opinberra starfsmanna því það eru nefnilega í gangi ofurlaun hjá ríkinu líka.

Við þurfum að skoða lífeyrisréttindi því að þar er að verða mjög skrýtin staða. Ég hef margoft bent á þetta á liðnum árum eða áratugum. Núna þegar þarf að skerða lífeyri frá almennu sjóðunum vegna áfalla á markaðnum um kannski 10%, vonandi ekki mikið meira, 15 eða 20%, þá halda opinberir starfsmenn sínum réttindum að fullu en iðgjald ríkissjóðs, þ.e. skattgreiðenda, þeirra sem lenda í áföllum vegna almennu lífeyrissjóðanna, er hækkað. Þetta er misrétti sem gengur varla upp og þarf að skoða mjög nákvæmlega. Sérstaklega þarf að skoða ofurlífeyrisréttindi sem eru í gangi í B-deildinni. Síðan þurfum við að skoða alveg opið að selja einhvern af þessum þremur ríkisbönkum sem fyrst til þess að minnka áhættu ríkissjóðs og framlag í þá banka.

Hver er framtíðin? Verkefni númer eitt er að semja við Breta og Hollendinga á þeim nótum að þjóðin geti undir því risið. Það þarf að kenna þessum mönnum sem eru að semja við okkur að það sé ekki skynsamlegt að leggja á Íslendinga þyngri byrðar en þær sem lagðar voru á Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöld og ollu þar óðaverðbólgu, gífurlegri fátækt, massaatvinnuleysi og því að Hitler komst til valda. Það er engin skynsemi, enginn græðir á slíku. Við þurfum að taka þátt í þessu, ef okkur ber yfirleitt skylda til þess, en ég er ekki sannfærður um það.

Ég vil benda á að með þessari aðgerð sem búið er að gera lækka skuldir þjóðarinnar niður í 1/4, úr 40 millj. á íbúa niður í kannski 10 millj. á íbúa, og það er ósköp viðráðanlegt.

Viðskiptajöfnuður og vöruskiptajöfnuður verða sennilega báðir jákvæðir þegar gengið fer aftur í gang, þegar búið er að ráða við jöklabréfin sem eiga eftir að streyma út. Um leið og búið er að ráða við þann stabba verður þetta jákvætt og þá verður meira framboð á erlendri mynt en krónum. Gengið mun styrkjast verulega í kjölfarið en það er spurning hversu langan tíma tekur að komast yfir þennan hjalla sem krónubréfin eru.

Mjög sterkur útflutningur sem vonandi verður ekki bjagaður af hráefnisverði um heiminn — því það er að lækka núna en þar tengist saman olíuverðslækkun og lækkun á álverði. Ég vona að það stoppi og hækki jafnvel aftur. Ef það gerist erum við með mjög sterkan útflutning, mikið minni innflutning af því að þjóðin er búin að læra að spara, og framtíðin er tiltölulega björt.

Varðandi það að ganga í Evrópusambandið — það er náttúrlega alveg fráleitt. Það er töfrasproti sem einhverjir eru að veifa en engin lausn vegna þess að við þurfum að uppfylla Maastricht-skilmálana. Við erum langt frá því að geta það og þegar við erum búin að uppfylla Maastricht-skilmálana er krónan bara ljómandi góð.