136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að þegar öll kurl verða komin til grafar og rykið hefur sest — ætlaði hv. þingmaður að hlusta á andsvarið? — (GMJ: Já.) sjái menn betur þau mistök sem gerð hafa verið. Ég tel að þau séu nokkur. Ég get ekki dæmt um þau núna af því að ég hef ekki allar forsendur. Ég hef ekki allar forsendur um það sem menn tóku ákvörðun um en ég hef grun um að forsendurnar hafi breyst og það mjög hratt. Þegar ríkið ætlaði að koma inn í Glitni í upphafi reiknuðu menn greinilega með því að lánsfjármat ríkisins og annarra banka mundi haldast. Það gerðist ekki og það er vegna þess að heimurinn hafði breyst í millitíðinni að einhverju leyti. Kannski var þetta rangt mat á því hvernig matsfyrirtækin mundu bregðast við.

Stundum taka menn ákvörðun sem reynist svo vera röng vegna þess að þeir mátu forsendurnar rangt eða að forsendurnar hafa breyst. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að komi í ljós með hvítbók, þetta þarf ekki að vera saknæmt þannig að þetta fellur ekki undir þann saksóknara sem þegar er búið að skipa til þess að fara í gegnum það sem saknæmt er. Þetta getur verið hreinlega einhver lærdómur sem menn þurfa að draga ályktun af.

Ég nefndi líka fleira sem við gerðum ekki sem er gagnkvæmt eignarhald, krosseignarhald. Það er eitthvað sem ég benti á fyrir löngu í efnahags- og skattanefnd, hélt sérstakan fund um fyrir þrem árum. Ég ræddi líka um jöklabréfin, vildi fá skýringar á þeim, og þá ógn sem af þeim stafaði, ég hélt sérstakan fund um það líka í efnahags- og skattanefnd. Mín ábyrgð felst í því að hafa ekki hamrað nógu mikið á þessu og hafa ekki staðið nógu fastur á því að þetta yrði leiðrétt.