136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi sagði ég ekki að stjórnarskráin hefði verið brotin, ég sagði að við gætum verið á barmi þess, þannig að hv. þingmaður verður að gæta sín á því.

Ég vil þó benda á að í stjórnarskránni stendur, að mig minnir, að ekki megi skuldbinda ríkissjóð öðruvísi en með samþykki Alþingis. Sömuleiðis stendur í lögum um fjárreiður ríkisins að ekki megi skuldbinda ríkissjóð nema með samþykki Alþingis. Ég spyr þingmanninn: Hvaða stöðu er Alþingi sett í þegar ríkisstjórnin eða forustumenn hennar hafa skrifað undir skuldbindingar eins og við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða innlánseigendur í Hollandi og koma svo með það til Alþingis og Alþingi fellir það? Auðvitað er í valdi Alþingis að gera það, ég veit það, en þegar svona gríðarlegir hagsmunir eru í húfi, skuldbindingar jafnvel á næstu kynslóðir, finnst þá hv. þingmanni í lagi að ríkisstjórnin gangi fram með þessum hætti?

Finnst hv. þingmanni líka í lagi að fjármálaráðherra skrifi undir viljayfirlýsingu um að greiða hundruð milljarða króna vegna vafasamra innstæðureikninga í öðrum löndum án þess að búið sé að kanna hver greiðsluskylda eða -krafa eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands geti verið? Mér finnast þetta ekki vinnubrögð og tel að þau samræmist ekki traustri og góðri stjórnsýslu og er hissa ef þingmaðurinn telur að þetta megi allt saman ganga fram. Það veldur mér miklum vonbrigðum, frú forseti. (Forseti hringir.) Að hinu atriðinu kem ég svo í seinna andsvari.