136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mál hv. þingmanns veldur mér miklum vonbrigðum, að honum finnist í lagi að ráðherrar skuldbindi íslenska þjóð með þeim hætti sem verið hefur að undanförnu, undirskrift Árna Mathiesens, bréfaskriftir hæstv. fjármálaráðherra, bréfaskriftir Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. (ÁPÁ: Allt innan þjóðréttarskuldbindinga.) Þar er rambað mjög á barminum og á fjárlaganefndarfundi í gær var þróunin dregin í efa og fullyrt að þetta væri ekki góð stjórnsýsla og dregið í efa að eðlilega væri að staðið. Ég tel að það alvarlegasta sem nú hafi gerst sé hvernig ríkisstjórnin — sem hv. þm. Árni Páll Árnason ver — kemur fram og blekkir íslenska þjóð um þá miklu erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir og krefst þess að þjóðin bíði og hlusti og taki á móti því sem yfir hana verður látið dynja, líka í skuldbindingum til næstu ára. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það. (ÁPÁ: Það hef ég aldrei sagt.)

Varðandi Evrópusambandið vil ég benda á þetta: Er það Evrópusambandinu að kenna að bankarnir voru einkavæddir og fóru í útrás? Í skjóli hvaða laga voru Icesave-reikningarnir stofnaðir í Bretlandi? Þeir voru einmitt stofnaðir í skjóli EES-samningsins (ÁPÁ: og Evrópusambandsins.) og Evrópusambandsins, að þar væri hægt að stofna til innlánsreikninga, skuldbindinga upp á hundruð milljarða króna með ábyrgð íslensks almennings. Ég frábið mér að við séum aðilar að slíkum samningum sem heimila að hægt sé að (Forseti hringir.) skuldsetja íslenskan almenning fyrir hundruð milljarða króna. (ÁPÁ: Úrsögn úr EES.) (Forseti hringir.) Ef þetta er það sem yfir okkur á að dynja þá er það alveg hárrétt.