136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:54]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

(LB: Nú er það erfitt!) Frú forseti. Það er hægt að gagnspyrja hv. þingmann hvort honum finnist að í lagi hafi verið með stjórn Sjálfstæðisflokksins á efnahagsmálunum undanfarin 17 ár og þetta sé algjörlega útlendingum að kenna hvernig komið er, því eitt það alvarlegasta er að viðurkenna ekki mistök sín og það gerði hæstv. forsætisráðherra ekki.

Hvað hefði annað verið hægt að gera? Ég minni á að á undanförnum árum hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ítrekað lagt fram frumvarp á Alþingi um hvernig ætti að breyta stefnu í efnahagsmálum og hvað ætti að gera og hefði betur verið farið að þeim tillögum. Þess vegna er rangt þegar því er haldið fram að þetta sé öllum að kenna. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu ítrekað fram tillögur (ÁPÁ: Hvað á að gera núna?) um gjörbreytta stefnu og bráðaaðgerðir til að leysa efnahagsvandann því þessi gríðarlega skuldasöfnun sem maður sá fyrir, hver heilvita maður hlaut að sjá að slíkt gat ekki gengið.

Um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, vafalaust getur sú staða komið upp — og hún er sjálfsagt að ríkisstjórnarinnar mati komin upp — að enginn annar vegur sé fær en að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en hvers vegna mega þá ekki skilmálarnir koma upp á borðið? Hvers vegna geta ekki Alþingi, þingmenn og þjóðin rætt þá skilmála? Ef þrautaráðið er að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvers vegna má þá ekki koma með skilmálana upp á borðið? Er það eitthvert vinnulag að ríkisstjórnin komi hér með hálfkveðnar vísur um hvað standi í skilmálunum? (Forseti hringir.) Látum skilmálana koma upp á borðið og ræðum þá sameiginlega um (Forseti hringir.) aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ef þess reynist þörf.