136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hv. þm. Jóni Bjarnasyni gengur treglega að svara spurningum sem ég beindi til hans. Ég ætla samt að biðja hann um að leggja mér ekki þau orð í munn að við séum á því að engin mistök hafi verið gerð. Ég orðaði það nú ekki einu sinni í andsvari mínu og dettur ekki í hug að halda því fram að allur vandi okkar komi einungis erlendis frá.

Ég reyndi að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann hefði viljað bregðast við núverandi stöðu án þess að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því í dag hvernig ferlinu er fyrir komið, hvernig samskiptum okkar við gjaldeyrissjóðinn verður háttað og hvenær hægt verði að greina almennilega frá skilyrðum sem þar eru. Ég spurði hv. þingmann ekki hvernig honum fyndist það. Ég spurði hann hvaða leiðir það væru sem menn hafa gefið til kynna í dag að séu færar okkur Íslendingum til að komast upp úr hremmingunum sem blasa við? Hvaða leiðir eru það sem menn tala um? Hvar ætti okkur að bera niður þegar liggur fyrir að búið er að tala við þjóðir í marga mánuði til þess að auka gjaldeyrissjóð þjóðarinnar — ýmsar leiðir voru reyndar áður en hv. þm., formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hóf samtal sitt við ráðherra í ríkisstjórn Noregs. Það hafa fleiri komið að þessu máli, ráðherrar í ríkisstjórninni, sem eru að ég tel í ágætu sambandi við nágrannalönd okkar. Mig langar til að spyrja þingmanninn og vil fá svar við því hvað það er sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð sér í þessu sem er okkur hinum svona gjörsamlega hulið.